Fyrrum forseti Vítisengla sýknaður

Einar Marteinsson.
Einar Marteinsson. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Einar Marteinsson, fyrrverandi forseti Vítisengla á Íslandi, var í dag sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness af ákæru um að hafa skipulagt árás á konu í desember sl. Fjórir voru dæmdir í málinu og hlutu tveggja og hálfs árs til fjögurra og hálfs árs fangelsi.

Málið var höfðað á hendur sex einstaklingum. Fólkið var ákært fyrir að ráðast inn í íbúð konu aðfaranótt 22. desember og beita hana grófu ofbeldi eða aðild að nefndri árás.

Konan var meðal annars tekin kverkataki og sparkað var í hana þar til hún missti meðvitund. Þá var reynt að klippa af henni fingur, hníf þrýst að hálsinum á henni og hún dregin á hárinu um íbúðina. Hún var að auki beitt grófu kynferðislegu ofbeldi, henni var hótað og hún látin borða fíkniefni.

Þyngsta dóminn hlaut Andrea Kristín Unnarsdóttir, fjögurra og hálfs árs fangelsi. Þá hlutu Jón Ólafsson og Elías Valdimar Jónsson fjögurra ára fangelsi og Óttar Gunnarsson tveggja og hálfs árs fangelsi. Einar og annar karlmaður til viðbótar voru sýknaðir af ákærunni.

Oddgeir Einarsson, verjandi Einars, sagði í samtali við mbl.is að skjólstæðingur sinn teldi sig eiga rétt á bótum frá ríkinu en hann hefur setið í gæsluvarðhaldi í um hálft ár. Hann íhugi því að fara í skaðabótamál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert