Góð félagsleg tengsl stuðla að hamingju

mbl.is/Helgi Bjarnason

Ísland hefur verið með hamingjusömustu þjóðum í heimi á síðustu áratugum. Meðalhamingja Íslendinga hefur verið í kringum 8 á skalanum 1-10. Eftir hrun bankanna lækkaði meðalhamingjan lítillega. Á meðan gæði sambands við fjölskyldu og vini spáir best fyrir um hamingju þá skýra tekjur minna en 1% af hamingju Íslendinga.

Þetta er á meðal þess sem kom fram í niðurstöðum rannsóknar Dóru Guðrúnar Guðmundsdóttur, sviðsstjóra hjá landlæknisembættinu, þar sem áhrif efnahagsþrenginga á hamingju og líðan Íslendinga voru sérstaklega skoðuð.

Dóra segir að það virðist vera lítið samband milli hamingju og þjóðarframleiðslu.  En þjóðarframleiðsla mælir ekki velferð í samfélaginu. Hún bendir á að neikvæð áhrif í samfélaginu geti haft jákvæð áhrif á þjóðarframleiðslu.

Hún tekur jafnframt fram að við getum aldrei skýrt 100% hamingju, en hins vegar sé mikilvæg að skoða hvaða þættir geti haft áhrif á hana.

Í máli hennar kom m.a. fram að hamingja landsmanna hafi lítið breyst eftir hrun. T.d. hafi ekki orðið dramatísk aukning á sjálfsvígum.

Á meðal helstu niðurstaðna rannsóknarinnar er að á milli 2007 og 2009 hafi hamingja 40% þátttakenda í rannsókninni Heilsu og líðan Íslendinga ekkert breyst, meðan 30% hækkuðu og önnur 30% lækkuðu.

Í október 2011 var meðalhamingja Íslendinga 7,2 og í febrúar 2012 var hún 7,3 (samkvæmt könnun sem Capacent gerði fyrir Embætti landlæknis).

Nærtækasta skýringin á lækkun á hamingju Íslendinga er sú að verulega hefur fjölgað í hópi þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman

Í febrúar 2012 voru 41,9% sem áttu erfitt með að ná endum saman, samanborið við 14,7% í nóvember 2007. Árið 2012 áttu 14,6 % mjög erfitt með að ná endum saman samanborið við 2,7% árið 2007

Um helmingur þeirra sem eru á aldrinum 25-54 ára á erfitt með að ná endum saman

Af þeim sem eiga mjög erfitt með að ná endum saman eru flestir í tekjulægsta hópnum. Þó skal taka fram að 14% þeirra sem eru í tekjulægsta hópnum eiga auðvelt með að ná endum saman og 25% af þeim sem hafa meira en milljón í fjölskyldutekjur á mánuði eiga erfitt með að ná endum saman.

Að vera atvinnulaus í leit að vinnu hefur neikvæð tengsl á hamingju.

Gæði sambands við fjölskyldu og vini spáir best fyrir um hamingju.

Náin tengsl við aðra, hafa sterk jákvæð tengslin við hamingju

  • Niðurstöður úr rannsóknum R&G sýna að fleiri unglingar töldu sig hamingjusama árið 2009 en 2006 og nærtækasta skýringin á því er að unglingarnir eyddu meiri tíma með foreldrum sínum.

Þeir sem eru giftir eru að meðaltali  hamingjusamir en aðrir.

Fólk á aldrinum 70-79 ára er að meðaltali hamingjusamara en aðrir aldurshópar.

Þeir sem  eiga erfiðast með að ná endum saman eru óhamingjusamastir.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru m.a. unnar úr rannsókninni Heilsa og líðan Íslendinga, sem er viðamikil spurningalistakönnun á heilsu, líðan og velferð fullorðinna Íslendinga. Könnunin er í umsjón Embættis landlæknis og er unnin í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands, Landspítalann og Vinnueftirlitið, auk sérfræðinga hjá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Háskólanum í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka