Hlífar Vatnar Stefánsson, sem játað hefur að hafa orðið Þóru Eyjalín Gísladóttur að bana í Hafnarfirði í febrúar, sagðist fyrir dómi í morgun ekki muna hvað gerðist. „Eina sem ég man er að hún fer í veski sitt og tekur upp hníf. Hún öskrar á mig og talar um að drepa mig. Ég man svo ekki meira.“
Aðalmeðferð í málinu fer fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag. Hlífar Vatnar hóf daginn á að gefa skýrslu. Hann segir að þau Þóra hafi hist 1. febrúar og dvalið saman næstu daga á heimili hans. Hann gat ekki svarað til um það hvers vegna hann réðst á hana. „Ég veit það ekki. Þetta kom svo á óvart, ég veit ekki hvað gerðist. Ég ætlaði engan veginn að drepa þessa manneskju. Ég vaknaði bara og þá var þetta búið að ske.“
Hlífar viðurkenndi að þau hefðu notað fíkniefni á þessum tíma, meðal annars rítalín. Hann sagði samband þeirra Þóru hafa verið gott og hann aldrei lagt hendur á hana áður. Þau hefðu ekki átt í ástarsambandi en verið vinir. Hún hefði hins vegar ráðist á hann áður. „En ég hef aldrei beitt hana ofbeldi, ég hef þá bara róað hana niður. Hún var erfið en ég hef aldrei meitt hana.“
Óljóst er hvenær Hlífar réði Þóru bana en hann taldi sjálfur að það hefði verið á föstudeginum 3. febrúar. Hann fór hins vegar ekki til lögreglu fyrr en 6. febrúar. Í millitíðinni hafi lík Þóru verið í herbergi Hlífars.