Fram fóru skýrslutökur yfir vitnum í aðalmeðferð í máli gegn Berki Birgissyni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Börkur er ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni og ærumeiðingar gagnvart opinberum starfsmanni í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómarinn í Héraðsdómi Reykjaness, sem varð fyrir svívirðingunum, gaf vitnisburð í gegn um síma. Sagði hann fráleitt að ofbeldið hafi ekki beinst gegn sér. Börkur sagði hins vegar að orð hans hefðu beinst að öðrum en dómaranum.
Dómarinn sagði Börk hafa horft á sig, verið með ógnandi tilburði, kallað sig „tussu“ í tvígang og hrækt á sig eftir að hafa kveðið upp úrskurð í máli gegn honum. Því segir dómari það fráleitt að áðurnefnt blótsyrði hafi ekki verið beint að sér.
„Þú ert nú meiri lygarinn,“ sagði Börkur eftir vitnisburð dómarans.
Búið er að taka skýrslur yfir vitnum og staðfesta þau öll að ákærði hafi beint þessu orði að dómaranum, hrækt á eða í átt að henni og verið mjög ógnandi í framkomu.
Kallar vitni „tussu“
Þegar aðalmeðferð hófst í morgun, eftir uppákomuna skömmu eftir klukkan 9, virtist Börkur fremur afslappaður í dómsal 101 í héraði. Eftir því sem leið á skýrslutökur virðist ákærði hafa ókyrrst nokkuð og ýmist sakað vitni um rangan vitnisburð eða hlegið að skýrslutökum.
Að auki kallaði hann tvö vitni í dag „tussu“ er þau gáfu vitnisburð sinn.
Börkur sat að mestu grímuklæddur við hlið verjanda síns.
Saksóknari sagði fyrir dómi í dag að dómari yrði að hafa það í huga að þjónn réttarhaldsins hafi verið svívirtur við vinnu sína. Fer saksóknari fram á sex mánaða fangelsi.
Börkur viðurkennir að hafa látið sagt umrætt blótsyrði en neitar alfarið að því hafi verið beint að dómaranum. Verjandi segir rannsókn málsins ábótavant því ekki hafi tekist að sanna að orðunum hafi verið beint að meintum brotaþola. Að auki er því haldið fram að Börkur hafi ekki verið ógnandi í framkomu. Er því krafist sýknu.
Málið hefur verið dómtekið.