Óljóst vegna óminnisástands

Hlífar Vatnar Stefánsson leiddur inn í dómsal.
Hlífar Vatnar Stefánsson leiddur inn í dómsal. Styrmir Kári

Óminnisástand Hlífars Vatnars Stefánssonar á verknaðarstundu er til þess gert að aldrei verður ljóst hvers vegna hann réðst á unnustu sína og réð henni bana. Hlífar sagði hana sína bestu vinkonu og að hann hafi aldrei beitt hana ofbeldi áður. Annað kom hins vegar fram hjá vitnum.

Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Hlífari lauk um hádegisbil í dag. Þar sem hann hefur játað er ljóst að Hlífar verður dæmdur í fangelsi og gengu ræður saksóknara og verjanda að mestu út á hvort hann ætti að fá meira eða minna en sextán ára fangelsi.

Komið verður að málflutningnum síðar. Fyrst ber að rifja upp atvik máls eins og þau liggja fyrir.

Hlífar Vatnar er 23 ára og kynntist Þóru Eyjalín Gísladóttur þegar hann var 19 ára. Þá var Þóra komin yfir þrítugt og hafði barist við vímuefnavanda um árabil. Áður en Hlífar kynntist Þóru, sem var í gegnum bróður hennar en þeir voru saman í skóla, notaði hann kannabisefni og einhverjum sinnum saug hann amfetamín í nefið. Kom þetta fram í framburði hans í morgun.

Kynni tókust með þeim, ástarsamband og neyslufélagsskapur. Fyrir dómi í morgun var því lýst að sambandið hefði verið stormasamt. Frænka Þóru sagðist ekki hafa verið í miklum samskiptum við þau þegar hún var ekki sjálf í rugli. En hún lýsti því að fjölmargir hlutir á heimili Þóru hefðu verið eyðilagðir í rifrildum þeirra. „Hún benti á hlut sem hún sagðist hafa brotið, annan sem Hlífar braut og þriðja sem þau brutu saman. Þau brutu hluti þegar þau voru reið.“

Umrædd frænka greindi einnig frá því að Þóra hefði verið með öðrum karlmanni sem Hlífar hafi ekki mátt vita af hálfum mánuði fyrir andlát hennar. „En hún hætti með honum og fór til Hlífars.“

Sakaði Hlífar um þjófnað

Upplýst var um það að Hlífar og Þóra hittust miðvikudaginn 1. febrúar sl. Einnig að sama dag hafi Þóra tekið út af bankareikningi sínum rúmar 142 þúsund krónur sem hún fékk í örorkubætur fyrr um daginn. Daginn eftir hringdi hún í barnsföður sinn, en þau eiga saman 19 ára gamlan son. Í samtali þeirra sagði hún Hlífar hafa stolið af sér peningnum og að hana vantaði hjálp við að ná þeim til baka.

Barnsfaðirinn sagðist ekki hafa kært sig um að blanda sér í málið og hafi einnig verið við vinnu. Hann mundi ekki hversu oft Þóra hringdi en hann hafi talað við hana í þrjú eða fjögur skipti. Annars lét hann hringja út.

Hlífar hafnaði því alfarið fyrir dómi að peningar hefðu verið rótin að árásinni. „Ég tók enga peninga af henni,“ sagði hann og undraðist það mjög að ákæruvaldið hafi talið það ástæðuna. Hann kannaðist ekki við að Þóra hafi haft samband við barnsföður sinn eða aðra á þeim tíma sem þau voru saman.

Þar sem ekki er ljóst hvenær Þóra lést miðar ákæruvaldið við það hvenær Þóra hætti að hringja í barnsföður sinn síðdegis á fimmtudeginum og svo við það sem kom fram í skýrslutöku yfir Hlífari hjá lögreglu, að hún hafi verið látin þegar hann fékk send til sín fíkniefni í hádeginu á föstudegi.

Fyrir dómi mundi Hlífar þó ekkert eftir því að hafa fengið send til sín fíkniefni á föstudeginum. Hann sagði hins vegar fyrir dómi í morgun að hann hafi ráðið henni bana á föstudeginum 3. febrúar.

Hann var einnig spurður um það hvort þau hafi verið á fíkniefnum á umræddu tímabili og sagði hann að þau hefðu notað rítalín sem Þóra hafi komið með.

Fann slæma lykt á heimilinu

Þóra lést á heimili Hlífars sem var í eigu föður hans. Sá gaf skýrslu fyrir dómi í morgun og hafði ekki góða sögu af Þóru að segja. Sagði hann hana hafa fengið hjá geðlækni hrúgu af ávanabindandi lyfjum og þegar þau kynntust þá hafi hallað á ógæfuhliðina hjá syni sínum.

Hann lýsti því einnig að hann hafi bannað Þóru að koma á heimili sitt. Hann hafi látið lögregluna „hirða“ hana þaðan og hann vissi ekki um veru hennar á heimilinu á umræddu tímabili. Hún hafi eflaust vitað betur en að láta vita af sér og samskipti við son sinn hafi að mestu verið í gegnum lokaða hurð.

Hjá lögreglu bar faðir Hlífars við að hann hefði fundið slæma lykt á heimilinu á laugardeginum. Hann hafi séð í eldhúsi að nautahakk hafi verið tekið úr frysti, helmingurinn eldaður en hinum stungið upp í skáp. Þar var það tekið að úldna, og hann þá hent því. „Ég hélt að það væri það. Svo þegar ég kom heim á sunnudeginum var lyktin enn.“

Á sunnudagskvöldinu varð hann þess einnig var að Hlífar hafði flutt sig úr herbergi sínu og yfir í annað herbergi. „Þá sagði ég við hann að það gengi ekki að rústa herbergi og flytja sig svo yfir í það næsta. Ég skipaði honum að fara inn í hitt herbergið og laga til, sem hann gerði.“

Stungin í hjartastað eftir látið

Það sem faðir Hlífars gerði sér ekki grein fyrir var að inni í herberginu lá lík Þóru á gólfinu. Sérfræðingur í tæknirannsóknum hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins lýsti vettvangi ítarlega, en um hafi verið að ræða lítið herbergi. Hann lýsti sérstökum blóðferli á vegg sem sást og benti til þess að Þóra hafi setið í stól upp við vegg deyjandi eða látin. Með tímanum hafi lík hennar sigið rólega niður á gólf þar sem það lá þegar það fannst.

Þá var því líst að stærsti áverki hennar hafi verið á hálsi og að líklega hafi hann fengist þegar hún kraup við fótgafl rúms í herberginu.

Á Þóru fundust varnaráverkar en einnig áverkar sem bentu til þess að hún hafi verið hætt að verja sig, þar á meðal stunga sem beindist að hjarta. Alls var um þrjátíu stungur að ræða.

Sagðist hafa drepið geimveru

Mánudagsmorguninn 6. febrúar mætti Hlífar Vatnar upp á lögreglustöðina í Hafnarfirði. Framburður hans var ruglingslegur og talaði hann um að hafa drepið geimveru. Hlífar kannaðist þó ekki við þá frásögn sína í morgun.

Hlífar lýsti því, að það síðasta sem hann muni er að Þóra fór út í horn herbergisins, í veski sitt og dró þar upp hníf. „Það er það seinasta sem ég man. Hún öskrar á mig og talar um að drepa mig. Hún hélt á hnífnum og ég man ekki meira. En hún var með þennan hníf í veskinu sínu, ég man það.“

Hann sagði líklegt að Þóra hefði ráðist á sig en hann myndi það þó ekki. „Þetta er ömurlegt. Ég ætlaði engan veginn að drepa þessa manneskju. Ég vaknaði bara og þá var þetta búið að ske.“

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, spurði mikið út í fyrri atvik þar sem hann beitti Þóru ofbeldi. Hlífar neitaði því alfarið að hafa beitt hana ofbeldi áður. Hann sagði að hún hafi getað verið erfið en þá hafi hann bara róað hana niður. „Hún hefur áður ráðist á mig en ég aldrei beitt hana ofbeldi. Hún var erfið en ég hef aldrei meitt hana.“

Með áverka eftir Hlífar

Þessi framburður Hlífars stangast á við það sem frænka Þóru sagði. Hún sagðist sjálf hrædd við Hlífar, að Þóra hefði verið hrædd við hann og að hún hafi séð hana með áverka eftir hann. „Ég vildi ekki hitta hana með Hlífari, ég óttaðist hann.“

Barnsfaðir Þóru sagði sömu sögu. Hann sagði að þau hefðu verið sundur og saman og að hann hafi séð hana bláa og marða eftir hann.

Faðir Hlífars sagði hins vegar aðeins aðra sögu, þ.e. að hún hafi alltaf verið með hnífa í kringum sig. Og að í eitt skiptið sem hann hafi fengið lögregluna til að „hirða“ hana hafi hún verið með hníf. Hann hafi margoft verið vitni að því að Þóra hafi ráðist á Hlífar og þá hafi hún brotið rúður í húsinu.

Þá var bent á það í málinu að Hlífar á að baki ofbeldisdóm.

Að upplagi viðkvæmur og vel gefinn

Geðlæknir sem kom fyrir dóminn í morgun sagði ljóst að Hlífar Vatnar sé sakhæfur. Hins vegar hafi verið erfitt að meta persónuleika hans vegna gríðarlegrar fíkniefnaneyslu. Hægt sé að merkja siðblinduþætti sem sjást hjá fólki í mikilli neyslu.

Engu að síður sagði geðlæknirinn að svo virtist sem Hlífar hafi veirð hlédrægur og ágætis drengur á yngri árum. Þegar hann fór í þessa gríðarlegu neyslu hafi hann breyst. Hann nái aldrei að stoppa sig af og hafi verið hætt kominn vegna neyslunnar, m.a. endaði hann í eitt skipti á gjörgæsludeild. „Hann er að upplagi viðkvæmur og vel gefinn drengur, en erfitt er að sanna það fyrr en eftir lengri tíma.“

Hann sagði það vel geta staðist að Hlífar hafi lent í umræddu óminnisástandi. Hann hafi verið gríðarlegur fíkill og vel geti verið að hann hafi ekki fleiri minningar um atburðinn. „Við erum að sjá nýjan hóp af fólki sem notar ekki rítalín í töfluformi heldur í æð og það er allt önnur verkun og miklu ofsakenndari,“ sagði hann og síðar að þá geti menn fengið morðhugsanir.

Sextán ár, meira eða minna

Í málflutningsræðu sinni gerði Helgi Magnús mikið út á það að Hlífar hafi beitt Þóru ofbeldi áður. „Ákærði virðist um nokkurt skeið hafa verið mjög ofbeldishneigður og auðreittur til reiði.“ Árásin hafi verið tilefnislaus og ásetningur skýr. Allt í málinu leiði til refsiþyngingar og ekkert til að milda dóminn. Meðal annars hafi hann verið nákomin Þóru en það skuli að jafnaði taka til greina til þyngingar refsingunni.

Helgi sagði að dómstólar virðist hafa lagt þá línu að sextán ár sé hæfileg refsing fyrir manndráp, nema eitthvað sérstakt komi til. Hann sagði ekkert í málinu gefa tilefni til þess að refsingin verði vægari en margt sem gefi dómara tækifæri til að fara hærra.

Bjarni Hauksson, verjandi Hlífars, hafnaði þessu alfarið og krafðist vægustu refsingu sem lög leyfa. Líta verði til ungs aldurs Hlífars en það eigi að hafa áhrif til refsilækkunar. Þá hafi hann komið til lögreglu að eigin frumkvæði, hann hefði getað flækt málið og reynt að komast undan en gerði það ekki.

Þá hafi hann borið við að honum hafi verið ógnað þegar Þóra tók upp hníf. „Ákærði þarf að taka út sína refsingu en það fælust ekki röng skilaboð í því að gefa honum einhver tækifæri og fara undir þau sextán ár sem er hin almenna niðurstaða í manndrápsmálum. Vonandi á ákærði möguleika á að taka sig á í lífinu.“

Atburðurinn átti sér stað í þessu húsi við Skúlaskeið í …
Atburðurinn átti sér stað í þessu húsi við Skúlaskeið í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert