Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, krafðist að minnsta kosti sextán ára fangelsis yfir Hlífari Vatnari Stefánssyni sem játað hefur að hafa orðið Þóru Eyjalín Gísladóttur að bana á heimili sínu í Hafnarfirði í Hafnarfirði. Til greina komi að dæma þyngri refsingu en sextán ár.
Helgi sagði það aldrei leitt í ljós með vissu hvað gerðist á heimili Hlífars en ljóst að játning Hlífars er sannleikanum samkvæm, enda studd ítarlegum sönnunargögnum. Vanda hafi verið bundið að ákvarða dánartíma Þóru en miðað sé við að það hafi gerst á tímabilinu frá síðdegis á fimmtudeginum 2. febrúar til hádegis föstudaginn 3. febrúar. Á þessu tímabili hafi Hlífar veitt Þóru þrjátíu stunguáverka.
Þóra hafi verið með varnaráverka á höndum og fótum en áverkar vinstra megin á brjósti sem beint var að hjartastað komu til þegar hún var hætt að verjast. „Það kann þó að vera að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að hún hafi verið látin,“ sagði Helgi Magnús en Hlífar var undir miklum áhrifum vímuefna.
Hann sagði árásina algjörlega tilefnislausa en ásetningur um að svipta Þóru lífi hafi verið skýr. Hlífar eigi sér engar málsbætur. Þá hafi framferði hans eftir verknaðinn lýst hroka og afneitun, mikill vafi sé um eftirsjá.
Til refsiþyngingar sagði Helgi Magnús að Þóra hafi verið beitt ofbeldi áður og að um sé að ræða ofbeldi í nánu sambandi sem leiddi að lokum til láts hennar. Þá sé um að ræða skilorðsrof. Því komi til greina að dæma þyngri refsingu en sextán ár. Ekkert gefi hins vegar tilefni til að fara neðar en sextán ára fangelsi.