Þrír kaflar opnaðir til viðbótar

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

Í morgun voru þrír nýir kaflar opnaðir í viðræðum við Evrópusambandið um aðild Íslands á sérstakri ríkjaráðstefnu í Brussel. Kaflarnir sem opnaðir voru fjalla um flutningastarfsemi, félags- og vinnumál og um fjárhagslegt eftirlit.

Alls er þá búið að opna 18 kafla af þeim 33 sem þarf að semja um og samningum um tíu þeirra er lokið. Því má segja að seinni hálfleikurinn í viðræðunum sé nú hafinn, eins og segir í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra sótti fundinn, ásamt þremur fulltrúum úr samninganefnd Íslands, þeim Stefáni Hauki Jóhannessyni, aðalsamningamanni, Maríönnu Jónasdóttur, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu og formanni samningahóps um fjárhagsleg málefni, og Martin Eyjólfssyni, sendiherra. Auk þeirra voru Auðunn Atlason, ráðgjafi ráðherra í Evrópumálum, og starfsmenn frá sendiráðinu í Brussel, þar á meðal Þórir Ibsen, sendiherra, í sendinefnd Íslands á ríkjaráðstefnunni.

„Það var mjög mikilvægur áfangi að opna þessa þrjá veigamiklu kafla, og alls voru því 7 kaflar opnaðir í tíð dönsku formennskunnar, og þar af tveimur lokað. Þó er enn mikilvægara, að í tíð Dana var lagður grundvöllur að því að opna erfiðustu kaflana, svo sem um fiskveiðar, umhverfismál, byggðamál og gjaldmiðilsmál. Viðræðurnar eru því á góðu skriði þó vissulega séu annir á öðrum sviðum hjá Evrópusambandinu eins og þjóð veit,” sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, í lok ráðstefnunnar.

Í viðræðum um samningskafla 14 um flutningastarfsemi, sem nú þegar er hluti af EES-samningnum, kom meðal annars fram að flutningastarfsemi er mikið hagsmunamál fyrir Ísland sé litið til einangrunar landsins og sérstæðs náttúrufars. Aðild mun færa Íslandi aðgang að loftferðasamninganeti Evrópusambandsins sem felur m.a. í sér mun betri aðgang að kanadíska flugmarkaðnum sem er vaxandi í íslenskri flugþjónustu. Í þessum kafla fer Ísland fram á sérstakar lausnir vegna flugumferðastjórnar, innanlandsflugs og hvíldartíma ökumanna.

Varðandi samningskafla 19 um félags- og vinnumál leggur Ísland í samningsafstöðu sinni þunga áherslu á að reglur á vinnumarkaði komi í veg fyrir félagsleg undirboð og stuðli að félagslegri vernd. Ísland mun sem aðildarríki öðlast rétt til að taka fullan þátt í starfsemi Félagsmálasjóðs Evrópu en hann vinnur m.a. gegn atvinnuleysi með því að styrkja með fjárframlögum símenntun og þjálfun fólks á vinnumarkaði. Með aðild að ESB mun Ísland fá sæti í stjórn Félagsmálasjóðsins og njóta fjárframlaga úr honum eins og önnur ríki.

Viðræður hófust um samningskafla 32 um fjárhagslegt eftirlit og kom fram að Ísland uppfyllir nú þegar helstu löggjöf Evrópusambandsins og alþjóðlega viðurkennda staðla og bestu starfsvenjur ESB í þessum málaflokki. Aðild að ESB kallar á formfastari og agaðri fjárhagsstjórnun hjá hinu opinbera og öfluga innri endurskoðun ríkisstofnana. Auk þessa kallar hún á virka samvinnu innlendra eftirlitsaðila til að sporna gegn auðgunarbrotum og tryggja fjárhagslega hagsmuni aðildarríkja ESB.

Gert er ráð fyrir að næstu ríkjaráðstefnur verði í október og desember næstkomandi á formennskutímabili Kýpur en formennsku Danmerkur í Evrópusambandinu lýkur í lok júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert