Neitar að hafa ekið á ofsahraða

Frá slysinu
Frá slysinu mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ungur ökumaður bíls sem endaði á húsvegg við Geirsgötu í ágúst 2011, með þeim afleiðingum að 17 ára gamall piltur lét lífið, fullyrðir að hann hafi aðeins ekið á 70 km hraða. Sérfræðingar áætla hinsvegar að bíllinn hafi verið á 119 km hraða. Löglegur hámarkshraði var 50 km. Ítarleg rannsókn var gerð á slysinu og mörg hundruð síðna skýrsla lögð fram í dómi.

Aðalmeðferð málsins fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Pilturinn er ákærður fyrir manndráp af gáleysi með því að hafa ekið langt yfir leyfilegum hámarkshraða, án þess að vera með ökuleyfi og þannig á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi vegfarenda og farþega í hættu. Eyþór Darri Róbertsson, sem var farþegi í bílnum, lést af sárum sínum eftir slysið, viku fyrir 18 ára afmælið sitt. Pilturinn játar að mestu leyti sök, en hafnar því að hafa ekið á ofsahraða, ökuhraðinn hafi verið um 70 km. Fyrir dóminum var því mestum tíma varið í að reyna að varpa ljósi á hver hraðinn kann að hafa verið og voru kölluð til vitni úr röðum vegfarenda þetta kvöld en fjölmargir urðu vitni að slysinu og dreif marga að.

Voru að fíflast í stelpum á rauðu ljósi

Atburðarásinni var lýst þannig að þeir hafi ásamt þriðja manni ekið á BMW í vesturátt eftir Sæbraut. Á rauðu ljósi við Hörpu stönsuðu þeir við hliðina á öðrum bíl, þar sem í voru þrjár stúlkur á svipuðum aldri. Piltarnir tveir sem lifðu slysið af lýstu því báðir þannig að þeir hefðu verið að fíflast og grínast í stelpunum, hækkað í tónlistinni og Eyþór hafi veifað og brosað til þeirra. Þeir hafi ætlað að aka af stað samsíða þeim, en ekki hafi þó verið farið í spyrnu. Fram kom að áður en þeir komu að ljósunum hafi bílstjórinn næstum misst stjórn á bílnum og þeim hafi þá brugðið og talið sig heppna að rekast ekki utan í næsta í næsta bíl. Piltarnir tveir sem voru farþegar vissu báðir að bílstjórinn var sá eini þeirra sem ekki var með ökuleyfi.

Stúlkurnar þrjár í hinum bílnum báru allar vitni fyrir dóminum í morgun og sögðu sömuleiðis að gefið hafi verið aðeins í þegar grænt ljós kom en aldrei hafi verið ætlunin að fara í spyrnu. Stúlkurnar fóru hratt af stað en hægðu strax á sér, en lýstu því þannig að bíllinn sem strákarnir voru í hafi farið fram fyrir þær og sveigt á milli bíla þar til þeir misstu skyndilega stjórn á honum. Stúlkurnar treystu sér ekki til að leggja mat á hversu hratt bíll strákanna hafi ekið, en sú sem ók sagði þá hafa verið á „smá svona glannahraða“ og önnur sagði að bíll strákanna hafi farið „langt, langt fram úr“ þeim. Bíllinn fór utan í kantstein og endaði á húsvegg við gatnamót Mýrargötu og Geirsgötu.

Eðlisfræðilega ómögulegt að bíllinn hafi verið á 70

Ökumaðurinn segist hafa fylgst með hraðamælinum allan tímann og sagðist aðspurður af dómara vera handviss um að hafa ekki farið yfir 70 km hraða. Niðurstöður rannsókna á vettvangi og á bílflakinu benda hinsvegar til annars, en skýrslur sem telja hundruð blaðsíðna liggja fyrir eftir ítarlega rannsókn á slysinu. 

Meðal þeirra sem bar vitni fyrir dóminum í morgun var Magnús Þór Jónsson, prófessor í vélaverkfræði, sem ætlar að bílnum hafi verið ekið á 119 km hraða þegar slysið varð. Hraðinn hafi ekki verið minni en 102 km á klst, en 136 km að hámarki. Magnús tók fram að hann áætlaði hraðann varlega og líklega hefði hann verið meiri en 119 km. Sagði hann aðferðarfræði byggja á orkulögmálinu, sem væri  óumdeilt eðlisfræðilögmál. Við útreikningana tók Magnús saman alla orkulosun sem var á staðnum og fann þannig út hraðann út frá þyngd bílsins, en mikil losun orku verður þegar bíll skellur á miklum hraða á kyrrstæðum hlut. 

Hálft tonn af grjóti færðist til

Kom m.a. fram að steinninn sem bíllinn skall á færðist til um nokkra metra, en samkvæmt vigtun lögreglu vó steinninn 490 kg. Við höggið tókst bíllinn á loft og í öryggismyndavél sést að framljósin voru í 1,80 metra hæð sekúndubrotum áður en hann skall á vegg gömlu Hafnarbúðarinnar. 

Magnús notaðist einnig við upptöku úr hraðamyndavél, með 15 metra sjónsvið og fór í gegnum hana ramma fyrir ramma. Benti hann á að þótt bíllinn hafi ekið hjá hafi hann ekki náðst á mynd, sem þýði að hann hafi farið yfir 30 metra á sekúndu og því ekki getað farið hægar en 100 km á klukkustund. Hefði hann ekið á 70 km hraða hefði hann sést á upptökunni, sagði Magnús. Þá kom fram að samkvæmt bíltæknirannsókn hafi bíllinn verið í góðu ástandi þannig að hann hefði átt að láta að stjórn væri honum ekið á eðlilegum hraða.

Aðalmeðferð málsins lýkur eftir hádegi í dag. 

Eyþór Darri Róbertsson lét lífið í bílslysinu við Geirsgötu í …
Eyþór Darri Róbertsson lét lífið í bílslysinu við Geirsgötu í fyrra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert