Börkur dæmdur í sex mánaða fangelsi

Börkur Birgisson
Börkur Birgisson mbl.is

Börkur Birgisson var í dag dæmdur í sex mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn valdstjórninni og ærumeiðingar gagnvart opinberum starfsmanni en hann kallaði dómara í Héraðsdómi Reykjaness meðal annars „tussu“ og lygara og hrækti á hann. Þá var hann ennfremur dæmdur til þess að greiða sakarkostnað upp á 502 þúsund krónur sem og málsvarnarkostnað skipaðs verjandi síns.

Börkur var ekki viðstaddur niðurstöðu Héraðsdóms í dag en fram kom að það væri að hans ósk. Við aðalmeðferð málsins fyrr í þessum mánuði bar hann því við að hann hafi ekki beint orðum sínum að dómaranum heldur öðrum. Þá hafi hann hrækt á skikkju dómarans en ekki hann sjálfan.

Við aðalmeðferðina fór verjandi Barkar fram á sýknu á þeim forsendum að rannsókn málsins hefði verið ábótavant þar sem ekki hefði tekist að sýna fram á að orðunum hefði verið beint að dómaranum. Þá hafnaði hann því að framkoma Barkar hefði verið ógnandi eins og honum væri gefið að sök.

Dómarinn sem varð fyrir svívirðingunum gaf vitnisburð í gegnum síma við aðalmeðferð málsins og sagði fráleitt að ofbeldið hefði ekki beinst gegn sér. Hann sagði Börk hafa horft á sig, verið með ógnandi tilburði, kallað sig „tussu“ í tvígang og hrækt á sig eftir að hafa kveðið upp úrskurð í máli gegn honum.

Saksóknari sagði við aðalmeðferð málsins að dómari yrði að hafa það í huga að þjónn réttarhaldsins hefði verið svívirtur við vinnu sína. Fór hann fram á að Börkur yrði dæmdur í sex mánaða fangelsi sem Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á í dag sem fyrr segir.

Frétt mbl.is: Kallar vitni „tussu“

Frétt mbl.is: „Ég hrækti á skikkjuna hennar“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert