Freyja kaus með sínum hætti

Freyja Haraldsdóttir.
Freyja Haraldsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Freyja Haraldsdóttir greiddi atkvæði sitt í forsetakosningunum í Fjölbrautaskóla Garðabæjar í dag. Aðstoðarkona hennar fékk að fylgja henni inn í kjörklefann þrátt fyrir að innanríkisráðherra hefði gefið út að slíkt væri ekki heimilt, en boðaði lagabreytingu til að heimila það.

Greint var frá þessu í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Þar var haft eftir Freyju að eftir langan fund með kjörstjórn hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að fulltrúi kjörstjórnar gaf aðstoðarkonu Freyju umboð sitt til að aðstoða hana.

Í samtali við mbl.is fyrir helgi sagðist Freyja ekki ætla að kjósa nema hún fengi að hafa aðstoðarkonu sína með sér inni í kjörklefanum.

Þá sagðist Ríkisútvarpið hafa heimildir fyrir því að á öðrum kjörstöðum hefði aðstoðarfólki fötluðu fólki verið óheimilt að fylgja því í kjörklefa, þrátt fyrir að vísað væri í fordæmi Freyju.

Að víkja frá lögum gæti valdið ógildingu

Ögmundur Jónasson innanríkisáðherra bað fyrir helgina fatlaða sem telja á sér brotið afsökunar á því að lögum hefði ekki þegar verið breytt þannig að þeir gætu valið sér aðstoðarmenn til að fara með í kjörklefa. 

Hann sagði að í  lögum væri kveðið á um hvernig veita mætti fötluðum aðstoð í forsetakosningum og að víkja þeim lagaákvæðum til hliðar gæti valdið ógildingu kosninganna.

Ákvæðið hljóðar svo: „Ef kjósandi skýrir kjörstjóra svo frá að hann sé eigi fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt eða árita og undirrita fylgibréfið sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal kjörstjóri veita honum aðstoð til þess í einrúmi, enda er hann bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli.

Um aðstoðina skal geta á skrá skv. 1. mgr. og á fylgibréfinu, að tilgreindum ástæðum. Aðstoð við að árita kjörseðil skal því aðeins veitt að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Óheimilt er að bjóða þeim aðstoð er þannig þarfnast hjálpar.“

Hugsanlega áhrif fjölmiðla

Freyja sendi frá sér tilkynningu í kvöld þar sem kemur fram að mikið af fötluðu fólki þurfti frá að hverfa eða kaus með aðstoð kjörstjórnar gegn vilja sínum. „Ekki veit ég hvers vegna gefið var eftir og ákveðið að fylgja mannréttindaákvæðum í stað kosningalögum í minni kjörstjórn en ekki öðrum. Ég velti því fyrir mér hvort ákvörðunin hafi verið háð því að með mér í för voru fjölmiðlar.“

Þá sagðist hún hafa ákveðið að sýna sjálfri sér þá virðingu að mæta á kjörstað og krefjast mannréttinda sinna, því þegar allt komi til alls sé það hennar verk. „Hingað til hefur engin komið með þau færandi hendi. Hvorki til mín né annarra sem búa við gegndarlaus mannréttindabrot. Þó ég hafi kosið er þetta er sorgardagur í mínum huga fyrir meinta lýðræðisríkið Ísland. Þrátt fyrir áratuga baráttu fatlaðs fólks á Íslandi fyrir mannréttindum, m.a. því að kjósa leynilega með eigin aðstoð, hefur ekki verið á okkur hlustað.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert