Vil aldrei lenda í svona aftur

„Ég var rosalega lengi að átta mig á því að ég hefði rústað tveimur bílum og slasað þrjá í rauninni, af því að þótt ég hafi kannski ekki ætlað að gera þetta þá var það mér að kenna," segir Gylfi Björgvin Guðmundsson, ungur ökumaður sem lenti í bílslysi í Kömbunum þegar hann var nýkominn með bílpróf.

Reyndi að koma í veg fyrir árekstur

Slysið varð með þeim hætti að Gylfi var að keyra upp Kambana, þar sem tvær akreinar liggja upp en ein niður. Ekkert vegrið aðskilur akstursstefnurnar og hámarkshraði á veginum er 90 km á klukkustund. Gylfi var á vinstri akrein, sem ætluð er fyrir hraðari umferð, þegar hann varð skyndilega var við að fyrir framan hann á miðri akreininni var kyrrstæður bíll.

Þar voru á ferðinni ferðamenn sem ætluðu sér að beygja út á útsýnissvæði á Kambabrún, brotin lína á veginum gaf til kynna að það væri heimilt en engin beygjuafrein var hins vegar. Gylfi negldi niður en það var of seint svo til þess að koma í veg fyrir árekstur sveigði hann frá bílnum, til vinstri. Hann sá ekki að þar var bíll að koma úr gagnstæðri átt.

Áreksturinn varð harður en sem betur fór voru allir með bílbelti í báðum bílum. Loftpúðar drógu að auki úr högginu í bíl strákanna og þeir sluppu með minniháttar áverka. Hinn bíllinn, sem var ómerktur lögreglubíll af eldri gerð, var ekki eins vel búinn og maðurinn sem þar sat undir stýri, Elís Kjartansson, slasaðist alvarlega. Hann sagði sögu sína á Mbl.is í gær.

Árekstrar á 90x90 km hraða eiga ekki að gerast

Suðurlandsvegurinn frá Reykjavík til Selfoss er einn fjölfarnasti og jafnframt einn slysamesti vegakafli landsins. Þar hafa tugir banaslysa orðið síðustu ár, sem hvítu krossarnir við Kögunarhól bera vitni um. Íbúar í Hveragerði og Selfossi hafa lengi barist fyrir umbótum á veginum frá Reykjavík. Árangurinn hefur ekki leynt sér á þeim veghlutum sem hafa verið bættir. Í Svínahrauni var t.d. lagður 2+1-vegur fyrir nokkrum árum og eftir að akstursstefnurnar voru aðskildar með vegriði hefur engin framanákeyrsla orðið á þeim vegarkafla.

Elís segir að slíkar umbætur þurfi að gera víðar og sem fyrst. „Ég vil sjá sem forgangsmál mannvirki sem koma í veg fyrir að bílar skelli saman á fullum umferðarhraða, 90 sinnum 90 kílómetra hraða. Það á ekki að þurfa að gerast, en það er boðið upp á að það gerist eins og vegirnir eru hannaðir í dag. Ég er sjálfur fórnarlamb umferðarslyss sem varð vegna þess að ekki var skilið á milli akreina og vil sjá að akstursstefnurnar séu aðgreindar þarna í Kömbunum, það er lífsnauðsynlegt. Við sjáum það á árangrinum í Svínahrauni að þessi mannvirki skipta höfuðmáli.“

Vegurinn var lagaður eftir slysið

Fyrir stuttu voru gerðar breytingar á veginum þar sem slysið varð. Línan sem áður var brotalína var máluð og er nú óbrotin, svo ekki er lengur heimilt að taka beygju yfir veginn á útsýnispallinn eins og ferðamennirnir ætluðu sér. Gróa Hreinsdóttir, móðir Gylfa Björgvins, segir þessa breytingu staðfesta að a.m.k. hluti af orsök slyssins hafi verið galli í gatnakerfinu.

Gróa segir sárt að það hafi ekki verið tekið með í reikninginn þegar Gylfi Björgvin var sóttur til saka, en í vor, átta mánuðum eftir slysið, var hann dæmdur til 150.000 kr. sektargreiðslu og ökuleyfissviptingar í þrjá mánuði. Gróa segist hafa efasemdir um gagnsemi þess að svipta ungan ökumann leyfinu vegna óhapps sem megi að hluta skrifa á reynsluleysi í umferðinni. „Mér finnst það harkalegur dómur. Þetta slys sem sonur minn lenti í hefði getað komið fyrir hvern sem er.“

Æfingaaksturinn mikilvægt tímabil

Gróa bendir á að slys sem ungir ökumenn valdi verði ekki endilega vegna þess að þeir séu ungir eða sýni glæfraskap, heldur vegna reynsluleysis. Þess vegna sé mikilvægt að foreldrar nýti vel heimild til æfingaaksturs, sem unnt er að fá frá 16 ára aldri, til að fylgjast með börnunum sínum undir stýri áður en þau fara ein út í umferðina. „Mér finnst þetta ofboðslega stórt og jákvætt skref í því að undirbúa unga ökumenn, að gefa þeim tækifæri á því að keyra með sínu fólki.“

Sjálfur segir Gylfi að þótt bílslysið hafi verið erfið lífsreynsla hafi það líka verið lærdómsríkt. Hann segist telja að margir ungir ökumenn átti sig ekki á því hversu hratt slysin gerist. „Ég hugsa að þetta hafi bara gert mig að betri ökumanni. Hugsa að ég keyri af meiri varkárni núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert