Debetkorti var stolið frá heimilismanni á Hrafnistu í Reykjavík í gær. Forsvarsmaður Hrafnistu, sem er hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir aldraða, segir að málið sé í öruggu ferli og að það verði kært til lögreglu í dag.
Harpa Gunnarsdóttir, fjármálastjóri Hrafnistu, segir í samtali við mbl.is að ákveðnir verkferlar fari í gang þegar svona lagað kemur upp. Hún segir að búið sé að loka kortinu og þá bendir Harpa á að myndir úr eftirlitsmyndavélum hafi verið skoðaðar og að málið sé að skýrast, þ.e. menn hafa ákveðnar grunsemdir um hver hafi verið þarna á ferðinni.
„Í þessu tilfelli er um utanaðkomandi aðila að ræða sem hefur komið hér inn eins og gestur,“ segir Harpa.
Hún tekur fram að mál sem þetta heyri til undantekninga. Það sé hins vegar ömurlegt að vita af því að einhver skuli hafa læðst inn í vistarverur heimilismanna til að stela frá þeim.
Málið er litið alvarlegum augum og það verður hart tekið á því að sögn Hörpu. „Við erum með sérstaka öryggisferla og vinnum að öryggismálum með sérfræðingum. Við reynum því bæði að undirbúa okkur og hafa hluti eins skýra og mögulegt er. Við vinnum líka faglega úr því þegar eitthvað kemur upp. Þá fer ákveðið ferli í gang og það er í gangi.“ Auk annarra starfsmanna er vaktmaður starfandi á heimilinu á kvöldin og um helgar.
Ekki liggur fyrir hvort fleiri en eitt kort hafi verið tekin ófrjálsri hendi eða hvort þjófurinn hafi náð að nota kortið áður en því var lokað.
Aðspurð segir Harpa að heimilismenn hafi brugðist við fréttunum af yfirvegun. Þeir og aðstandendur þeirra hafi hins vegar verið hvattir til að ganga ávallt tryggilega frá sínum eigum. Heimilismenn á Hrafnistu í Reykjavík eru um 230 talsins.