Íslendingur handtekinn í Brasilíu

Frá Rio de Janeiro í Brasilíu.
Frá Rio de Janeiro í Brasilíu. AFP

Lögreglan í Brasilíu hefur handtekið Íslending í Ríó de Janeiro í tengslum við umfangsmikið fíkniefnamál. Hann er grunaður um að aðild á innflutningi á um 46.000 e-töflum. Þetta hefur fengist staðfest frá Utanríkisráðuneytinu en þar fengust einnig þær upplýsingar að ræðismaður Íslands í Rio de Janeiro sé að vinna í málinu.

Fram kemur í brasilískum fjölmiðlum, að töflurnar hafi fundist í farangri 26 ára gamallar brasilískrar konu, sem kom til landsins frá Lissabon í Portúgal. Hún var stöðvuð á Tom Jobim flugvellinum í borginni sl. mánudag.

Konan hefur verið yfirheyrð og þá kom fram að hún hafi ætlað að hitta kærasta sinn, sem er Brasilíumaður, og Íslendinginn, sem er sagður á fimmtugsaldri, á kaffihúsi í Ipanema.

Lögreglan fór á staðinn og handtók mennina á mánudaginn.

Við húsleit í íbúð Brasilíumannsins fannst reiðufé, maríjúana og LSD. Þá var framkvæmd leit á hótelherbergi, sem Íslendingurinn dvaldi á, og þar fannst hass.

Lögreglan segir að Íslendingurinn hafi komið til Brasilíu með sama flugi og konan, þ.e. frá Lissabon. Honum tókst hins vegar að komast í gegnum eftirlitið með hassið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert