Björninn er á selaríkasta svæði landsins

Þyrla Landhelgisgæslunnar á flugi við bæinn Geitafell á Vatnsnesi þar …
Þyrla Landhelgisgæslunnar á flugi við bæinn Geitafell á Vatnsnesi þar sem björninn sást í gær. mynd/Róbert Jack

Vatnsnesið og Heggstaðanesið er það svæði landsins þar sem mest er um seli. Það ætti því að vera nægt æti fyrir hvítabjörninn sem leitað er að á þessu svæði. Þyrlan hefur flogið yfir selalátur í gær og í dag, en þar hefur allt verið með ró og spekt.

Sandra Granquist, dýraatferlisfræðingur og starfsmaður Veiðimálastofnunar, er að rannsaka seli á Vatnsnesi, m.a. hvað þeir éta og áhrif ferðamanna á selina. Hún hefur aðstöðu á Selasetrinu á Hvammstanga, en þar hafa margir ferðamenn komið í dag.

Sandra segir að Vatnsnesið og Heggstaðanesið, ásamt Breiðafirðinum, séu þau svæði landsins þar sem mest er um seli. Mjög auðvelt sé fyrir ferðamenn að sjá seli á Vatnsnesi og stöðugt fleiri ferðamenn nýti sér tækifæri til að skoða þá. Hægt er að skoða þá úr landi, en einnig er boðið upp á sjóferðir frá Hvammstanga til að skoða selalátrin af sjó.

Selir eru uppáhaldsfæða hvítabjarna og það er nóg af þeim á Vatnsnesi. Það er svo annað mál hversu auðvelt er fyrir hvítabjörninn að klófesta þá.

Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn á Blönduósi, segir að þyrla Landhelgisgæslunnar sé búin að fljúga yfir selalátrin á þessu svæði, en þar sé allt með ró og spekt og ekkert sem bendi til að hvítabjörn hafi reynt að ná sér í seli.

Þyrlan flaug vestur með ströndinni og norður á Strandir eftir hádegið í dag. Leitin hefur enn ekki skilað neinum árangri. Kristján segir að staðan verði endurmetin þegar þyrlan sé búin að fara yfir svæðið. Mjög gott veður er á svæðinu og aðstæður til leitar því góðar.

Umferð um Vatnsnesið var takmörkuð í gærkvöldi, en engin takmörk séu á umferð í dag. Kristján segir að ferðamenn geti því ferðast um svæðið, en þeir geri það á eigin ábyrgð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert