Selatalning á slóðum hvítabjarna

Selatalningin hefst 22. júlí.
Selatalningin hefst 22. júlí. Rax / Ragnar Axelsson

Árleg selatalning á Vatnsnesi og á Heggstaðanesi í Húnaþingi vestra á vegum Selaseturs Íslands á Hvammstanga fer fram hinn 22. júlí næstkomandi. Á þessum sömu slóðum fer fram umfangsmikil leit að hvítabirni en þyrla Landhelgisgæslu Íslands fínkembir nú svæðið.

„Það mætti ætla að þátttakan verði góð í ár, fólk getur kannski talið hvítabirni í leiðinni,“ segir Vignir Skúlason, framkvæmdastjóri Selasetur Íslands, en talningarnar fara þannig fram að allir sjáanlegir selir eru taldir samtímis á stórstreymisfjöru á u.þ.b. 100 km langri strandlengju. 

Vignir segir vanalega mjög mikið vera af sel á þessu svæði en t.a.m. voru alls 1.033 selir taldir í fyrra. „Þetta er mjög skemmtileg upplifun fyrir hinn almenna ferðamann, heimafólk og alla sem vilja taka þátt í rannsóknarstörfum Selasetursins og hafa áhuga á að vera úti í náttúrunni.“

„Þú ert öruggur um að sjá sel“

Frá árinu 2007 hafa árlega verið gerðar selatalningar á þessu svæði og hefur vanalega verið vel mætt eða um fimmtíu til eitthundrað manns hverju sinni.

Náttúran og dýralíf á svæðinu er hreint út sagt stórbrotin og eru því allir sem áhuga hafa á útiveru og dýralífi hvattir til þátttöku.

„Þetta eru aðgengilegustu selátur Íslands og það eru selir þarna allan ársins hring. Þú ert öruggur um að sjá sel í návígi ef þú kemur út á Vatnsnes,“ segir Vignir en að auki skartar náttúran sínu fegursta með stórbrotnum klettabeltum og stuðlabergi ofan í fjöru.

Skráning til 19. júlí nk.

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku sína í síðasti lagi fimmtudaginn 19. júlí nk. Hafi fólk áhuga á að taka þátt í talningunni er því bent á að hringja í síma 451-2345 eða senda tölvupóst á netfangið selasetur@selasetur.is.

Þátttaka er án endurgjalds og fá allir þátttakendur frítt inn á fræðslusafn Selasetursins.

Selur tekur léttan sundsprett.
Selur tekur léttan sundsprett. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert