Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort þyrla Landhelgisgæslu Íslands, TF-LIF, verður send í að svipast um eftir hvítabirni sem erlendir ferðamenn töldu sig hafa séð við Húnaflóa.
Þær upplýsingar fengust frá stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands í morgun að ekkert þyrluflug væri skráð fyrir daginn í dag.
Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn á Blönduósi, sagði í samtali við mbl.is að fremur þungbúið væri á svæðinu og því hafa aðstæður til leitar breyst talsvert frá því í gær en þá var skyggni mjög gott.
„Við reynum a.m.k. að fljúga eitthvað um helgina. Hvort sem það verður í dag, á morgun eða mánudag skiptir svo sem ekki öllu,“ sagði Kristján.
Í gær leitaði áhöfn þyrlu Gæslunnar að hvítabirni á nokkuð stóru svæði en án árangurs. Leitað var meðfram ströndinni frá Skaga, á Vatnsnesi og Heggstaðanesi en einnig á Ströndum vestan Húnaflóa.
Það eina sem fannst var öldumælisdufl sem hafði slitnað upp fyrir nokkru en það hafði rekið frá Straumnesi fyrir Horn og inn á Strandir.