Hlífar Vatnar Stefánsson var í morgun dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir að bana unnustu sinni, Þóru Eyjalín Gísladóttur. Héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness kvað upp dóminn en Hlífar Vatnar var fjarverandi. Þá er honum gert að greiða fjölskyldu Þóru bætur vegna miska og sakarkostnað málsins, alls á áttundu milljón króna.
Refsingin er fremur fyrirsjáanleg enda nær algilt á Íslandi að menn fái sextán ára dóm fyrir manndráp. Skiptir þá engu þó saksóknari hafi talið ástæður til refsihækkunar og verjandi Hlífars til refsilækkunar. Afpláni Hlífar Vatnar allan dóminn, sem verður að teljast ólíklegt, losnar hann út 39 ára gamall.
Hlífar Vatnar játaði að hafa orðið unnustu sinni, Þóru Eyjalín, að bana á heimili föður síns í Hafnarfirði á tímabilinu frá síðdegis á fimmtudeginum 2. febrúar til hádegis föstudaginn 3. febrúar. Sökum vímuefnaneyslu var ekki hægt að tímasetja manndrápið frekar, en ljóst þykir að Hlífar Vatnar hafi deilt herbergi með líki Þóru í alla vega sólarhring.
„Ég ætlaði engan veginn að drepa þessa manneskju. Ég vaknaði bara og þá var þetta búið að ske,“ sagði Hlífar Vatnar við aðalmeðferð í málinu. Á Þóru fundust varnaráverkar en einnig áverkar sem bentu til þess að hún hafi verið hætt að verja sig, þar á meðal stunga sem beindist að hjarta. Alls var um þrjátíu stungur að ræða.
Geðlæknir staðfesti það fyrri dómi að vel geti staðist að Hlífar Vatnar hafi lent í umræddu óminnisástandi. Hann hafi verið gríðarlegur fíkill og þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem hann fari í ástand sem þetta.