Á fundi lögreglu og Landhelgisgæslu Íslands var ákveðið að nota áfram þyrlu Landhelgisgæslunnar við leit að hvítabirni sem erlendir ferðamenn töldu sig hafa séð í Húnaflóa.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Blönduósi verður leitað á sama svæði og í gær.
Fara í loftið klukkan 11
Þegar haft var samband við stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands fengust þær upplýsingar að verið væri að undirbúa bæði þyrlu og áhöfn fyrir flug. Stefnt er að því að þyrlan fari í loftið klukkan 11 og verði komin á leitarsvæðið um hádegi.
Samkvæmt heimildum mbl.is er ekki gert ráð fyrir því að þyrlan leiti mjög lengi í dag nema einhverjar nýjar vísbendingar komi í ljós.
Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn á Blönduósi, sagði í samtali við mbl.is fyrr í morgun að fremur þungbúið væri á svæðinu. Hafa því aðstæður til leitar breyst töluvert frá því í gær en þá var veður mjög gott.
Fólk hafi varann á sér
Þeim tilmælum er beint til fólks að hafa varann á sér og tilkynna til lögreglu hafi það einhverjar upplýsingar um ferðir hvítabjarnarins.
Uppfært klukkan 10:18
Í tilkynningu sem Landhelgisgæsla Íslands sendi frá sér vegna leitarinnar kemur m.a. fram að leitað verði ítarlega á svæðinu umhverfis Vatnsnes og að ákveðið hafi verið að fara í þetta flug í stað æfingaflugs.
Þá eru ekki frekari flug á dagskrá í tengslum við þetta mál en framhaldið verður metið í samráði við lögreglu.