„Vissi ekki að ég yrði næstur“

Í upphafi aðventu 2006 varð slys á Suðurlandsvegi við Sandskeið sem skók þjóðina og gjörbreytti lífi einnar fjölskyldu.  Ásgeir Ingvi Jónsson var á leið austur í Þorlákshöfn með tvö börn sín í aftursætinu þegar bíll úr gagnstæðri átt fór yfir á rangan vegarhelming. Í árekstrinum lést Svandís Þula, 5 ára gömul dóttir Ásgeirs, og 8 ára bróðir hennar, Nóni Sær, lamaðist neðan mittis. 29 ára maður sem var farþegi í hinum bílnum lést einnig.

Lærir að lifa með því

„Maður jafnar sig aldrei á þessu, það er alveg klár mál. Maður lifir alltaf með þessu,” segir Ásgeir aðspurður hvernig lífið hefur verið árin fimm sem liðin eru frá slysinu. Eftir því sem lengra líður verður líka lengri tími milli þess sem hugurinn dvelur við slysið að sögn Ásgeirs, en 2. desember ár hvert er fjölskyldunni ætíð þungbær.

„Dagsetning slyssins er alltaf erfiður tími. En fólk sem upplifir svona, það finnur sér leiðir til að lifa með því. Hver og einn finnur sína aðferð og auðvitað er misjafnt hvernig það gengur. Maður reynir að þakka fyrir það sem maður hefur en vera ekki að velta sér upp úr því sem maður missti.” Ásgeir fann mikla hjálp í því tala við aðra foreldra sem misst hafa börn sín, hjá samtökunum  Ný dögun. „Það er það sem hefur reynst mér best, að hitta fólk sem er í svipuðum aðstæðum. Það spyr öðru vísi og skilur betur, án þess að maður geti útskýrt hvernig, maður bara finnur það.”

Sonur Ásgeirs, Nóni Sær, varð fyrir mænuskaða í slysinu og er bundinn hjólastól, en Ásgeir vill frekar  hafa í huga að það hefði getað farið verr. „Efri hluti líkamans er í góðu lagi, þannig að hann hefur alla burði til að bjarga sér og mér finnst oft ótrúlegt hvað hann virðist ekki velta sér mikið upp úr þessu. Þetta er bara svona, og snýst um það að laga hlutina að þessum veruleika en ekki einhverjum öðrum.”

Eins og að keyra á vegg á 90 km hraða

Sjálfur rifbeinsbrotnaði Ásgeir og sat fastur í bílnum þar til lögregla og slökkvilið klipptu hann lausan. Hann segir áreksturinn hafa verið eins og að keyra á vegg. „Það eru náttúrulega gríðarleg átök að vera á 90 km hraða, eins og hraðinn er á þessum vegi, og vera stoppaður á einum punkti. Mér er sagt að bíllinn hafi verið stoppaður af á punktinum hjá mér, sem er víst frekar óvenjulegt því algengst er að bílar hendist í sitt hvora áttina.” 

Ásgeir er þeirrar skoðunar að gera þurfi átak í því að aðskilja akstursstefnur þar sem hraðinn er mikill. „Lang alvarlegustu slysin verða með þessum hætti. Þegar tveir bílar keyra beint framan á hvor annan á fullri ferð þá hefur það alltaf skelfilegar afleiðingar, hvort sem það verður banaslys eða einhver lamast. Ég veit það er ekki hægt að gera allt og að allir vilja fá sinn vegspotta, en manni finnst allavega að það hljóti að þurfa að vinna í því að laga þessa alvarlegu slysabletti í nágrenni við höfuðborgina, þar sem alvarlegustu slysin verða aftur og aftur.”

Fjögur samskonar banaslys síðan

Strax í kjölfar slyssins sem Ásgeir og börnin hans urðu fyrir spruttu miklar umræður um umbætur á Suðurlandsvegi en deilt var um það hvort leggja ætti s.k. 2+1 eða 2+2 veg. Ásgeir segir að óháð útfærslunni hefði hann fyrst og fremst viljað sjá framkvæmdir strax. Á því teygðist hinsvegar og það var ekki fyrr en síðasta haust, 5 árum síðar, sem vegurinn var tvöfaldaður við Sandskeið og frágangi lýkur nú í sumar. Í millitíðinni létu fjórir til viðbótar lífið vegna framanákeyrslu á Suðurlandsvegi og enn á eftir að breikka stóra hluta hans.

„Að hlusta á þessar umræður eins og voru um Suðurlandsveginn, mér fannst það alltaf mjög sárt [...] því það er eins og fólk geri sér ekki grein fyrir, ég er nú búinn að gleyma fjöldanum á krossunum í Ölfusi vegna fólks sem hefur farist á Suðurlandsvegi, en það er fjöldi manns sem hefur misst ástvini á þessum vegi. Með því að að aðgreina akstursstefnurnar hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau.”

Slysin kosta milljarða

Kostnaðurinn, eða öllu heldur sparnaðurinn, er Ásgeiri líka hugleikinn. Innanríkisráðuneytið áætlar að umferðarslys kosti íslenskt samfélag um 30 milljarða á hverju ári og Ásgeir hefur séð með eigin augum upphæðirnar sem fylgja einu einstöku slysi.

„Það er oft verið að velta fyrir sér hvernig eigi að fjármagna þessar framkvæmdir, en hvað með sparnaðinn í kerfinu? Í heilbrigðiskerfinu, tryggingakerfinu og hjá þeim einstaklingum sem lenda í þessu? Fyrir utan náttúrulega það sem verður aldrei metið til fjár. Bara í þessu eina slysi erum við að tala um tvö mannslíf sem fóru og einn sem er lamaður og þarf örorkubætur og hjálpartæki fyrir lífstíð.

Ef við tökum allar þessar tölur saman erum við að tala um tugi milljóna, jafnvel hundruð milljóna fyrir samfélagið. Út af þessu eina slysi. Svo geta menn rifist um það hvort fara eigi í framkvæmdina ef hún kostar 100 milljónum meira eða minna. Mér finnst allt of algengt í þessum málum að hver og einn horfi út frá einu sjónarhorni, í stað þess að horft sé á þetta heildstætt.”

Menn verða að horfast í augu við það sem þeir hafa gert

Ökumaðurinn í hinum bílnum, sem olli slysinu, var síðar dæmdur í árs fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Ásgeir segist fyrst og fremst hafa reynt að horfa á þetta sem slys og ekki látið reiði sína beinast gegn neinum. Engu að síður átti hann erfitt með að reiðast ekki þegar í ljós kom að eftir slysið var ökumaðurinn 9 sinnum stöðvaður fyrir of hraðan akstur, áður en hann var sviptur leyfinu til fjögurra ára vorið 2008.

„Þótt slys sé ekki viljaverk þá ber engu að síður einhver ábyrgð á því. Ég hef aldrei ætlað manninum að hafa farið yfir á minn vegarhelming til þess að keyra á mig, það hefur aldrei hvarflað að mér, en það fór mjög illa í mig að sjá þetta háttalag og ég held að það eigi við um fleiri, þegar menn vilja ekki horfast í augu við það sem þeir hafa gert.”

Enginn veit hver verður næstur

Ásgeir telur að fólk þurfi að líta sér nær í umferðinni. „Við lögum þetta ekki með refsigleði, umferðarmenningin hún skánar ekkert þótt við lokum fullt af mönnum inni sem verða valdir að slysum. Við þurfum fyrst og fremst að breyta hugarfari fólks til að fá það til að haga sér betur. [Við þurfum að] vera minnug þess að að það er ótrúlega stór hópur í samfélaginu sem hefur misst einhvern nákominn í slysum og það veit enginn hver verður næstur. Ekki vissi ég það laugardagsmorguninn 2. desember að ég yrði næstur.

Það veit enginn hvar næsta slys skeður og eins hvort að þú sért valdur að því eða einhver annar. Þannig að til þess að þetta breytist þarf hver fyrir sig að hugsa: Hvað get ég gert? Hvernig get ég lagað mig? Því augnabliks hugsunarleysi á 90 kílómetra hraða getur haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér.” 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert