Mennta- og menningarmálaráðherra hefur fallist á tillögu Húsafriðunarnefndar um að friða innra byrði hússins að Fríkirkjuvegi 11. Ytra byrði hússins var friðað 25. apríl 1978 en Húsafriðunarnefnd taldi að um slíka gersemi að allri gerð sé að ræða, að húsið skuli vera friðað í heild sinni.
Húsafriðunarnefnd óskaði eftir því í janúar sl. að forstöðumaður hefði undirbúning að friðun innra byrðis hússins á Fríkirkjuvegi 11. Var það vegna þess að eigandi hússins, Björgólfur Thor Björgólfsson, ætlaði sér að gera miklar breytingar, s.s. færa aðalstiga og veggi, taka niður stiga og gera nýja, brjóta niður veggi og fjölga og stækka dyraop. „Talið er að með þessum breytingum verði gildi þessa glæsilega húss rýrt meira en ásættanlegt getur talist þegar svo varðveisluvert hús á í hlut,“ sagði í fundargerð nefndarinnar frá því í janúar.
Í frétt á vef Húsafriðunarnefndar segir að þegar húsið var reist þótti það glæsilegasta íbúðarhús landsins. Auk fjölmargra atriða sem voru nýlunda á þeim tíma, s.s. vatns- og raflagnir, sé innra byrðið vitnisburður um hið besta sem gert var á þessu sviði á fyrri hluta 20. aldar, hvort sem um er að ræða frágang á smíðum eða málun, sem unnin var af fyrstu lærðu íslensku málurunum.