„Reiknaði með þessari niðurstöðu“

Erla Hlynsdóttir blaðamaður.
Erla Hlynsdóttir blaðamaður. mbl.is

„Ég reiknaði alltaf með þessari niðurstöðu. Annað hefði í raun og veru verið fáránlegt,“ segir Erla Hlynsdóttir blaðamaður sem í dag vann mál fyrir mannréttindadómstól Evrópu ásamt Björk Eiðsdóttur blaðamanni.

„Ég lít ekki á þessa niðurstöðu eingöngu sem sigur fyrir mig heldur fyrir alla íslenska blaðamenn,“ segir Erla og bætir við að hún hafi fundið það í sínu starfi og einnig með samtölum við blaðamenn að þeir voru hikandi við að fara í fréttamál af ótta við „þessa fáránlegu meiðyrðadóma,“ eins og Erla orðar það. Hún segir það ekki gott þegar blaðamenn séu hræddir við að fjalla um mál vegna ótta við að fá á sig dóm. Það sé ekki gott fyrir tjáningarfrelsið eða umræðuna í landinu.

Erla hefur vísað tveimur öðrum dómum hæstaréttar til mannréttindadómstólsins, en þeir snerta fréttir sem hún skrifaði um Byrgismálið og svokallað skútumál. Hún segir að það taki langan tíma að fá niðurstöðu í mál fyrir mannréttindadómstólnum, en hún kvaðst binda vonir við að ríkisvaldið semdi við sig um niðurstöðu málsins í kjölfar þessa dóms í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert