Blaðamennirnir Björk Eiðsdóttir og Erla Hlynsdóttir unnu báðar mál sín fyrir Mannréttindadómstól Evrópu gegn íslenska ríkinu en dómur var kveðinn upp í málum þeirra í morgun. Er íslenska ríkinu gert að greiða þeim báðum bætur.
Mál Bjarkar er svokallað Vikumál, þar sem Björk hlaut dóm fyrir meiðyrði, en stefnandi þess máls var eigandi nektarstaðarins Goldfinger í Kópavogi.
Erla hlaut dóm fyrir meiðyrði, en stefnandi þess máls var eigandi nektarstaðarins Strawberries í Lækjargötu.
Í báðum tilvikum taldi dómstóllinn að íslenska ríkið hefði brotið gegn 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem fjallað er um tjáningarfrelsið.
Er íslenska ríkinu gert að greiða Björk 37.790 evrur, tæpar sex milljónir króna, og Erlu 21.500 evrur, 3,4 milljónir króna.