Rúmlega tvítugur karlmaður var handtekinn við rússneska sendiráðið við Túngötu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu veittist maðurinn að lögreglumönnum sem höfðu afskipti af öðrum aðila sem virtist ætla að draga einhverja dulu upp í flaggstöng sendiráðsins.
Maðurinn er nú til yfirheyrslu hjá lögreglu. Hann verður væntanlega kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt og fyrir að hindra lögreglumenn í starfi.
Maðurinn sem var handtekinn var að mótmæla handtökum rússneskra yfirvalda á meðlimum pönkhjómsveitarinnar Pussy Riot. Meðlimirnir, sem eru allir kvenkyns, voru handteknar vegna mótmæla við stjórn Vladimir Putins.
Boðað var til samstöðufundar fyrir utan sendiráð Rússlands í dag. Mótmælendurnir segja að brotið hafi verið á grundvallar mannréttindum kvennanna en þær hafa verið í haldi án dóms frá því í mars.