„Menn skeindust á sálinni“

Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson mbl.is

Snorra Óskarssyni, oftast kenndur við Betel, hefur verið sagt upp störfum hjá Brekkuskóla á Akureyri. „Ég gekk út af fundi með uppsögn í hendi og grun um að menn ætluðu í nafni yfirvalda að snúa sjónvarpsstöðina Ómegu niður vegna þess að boðskapur hennar hentaði ekki „samkynhneigðum og trans“ mönnum? Menn skeindust á sálinni vegna boðskapar Biblíunnar.“

Snorri upplýsir um málið í pistli á vefsvæði sínu og segir uppsögnina í nafni sárinda. Hann hafi verið kallaður á fund fræðslustjóra Akureyrarbæjar í dag. Hann hafi verið með bréf í hendi sem hann óskaði eftir að Snorri undirritaði. "Bréfið var uppsögn. Ég hef 5 mánaða rétt til launa, 3 mánaða rétt til að kæra málið til Innanríkisráðneytisins og 14 daga rétt til að fá frekari rökstuðning fyrir uppsögninni.“

Snorri segir þetta endalokin á ferli sem hófst árið 2010 þegar Akureyrarbær hafi farið fram á það að hann hætti að nýta stjórnarskrárvarinn rétt sinn til tjáningarfrelsis. Hann segir að grunnstefið í uppsögninni hafi verið að kynhneigð sé ekki hægt að breyta. „Ég stend í þeirri meiningu að kynhneigð sem aðrar tilfinningar séu breytingum háðar og við mennirnir þurfum að gæta þess sem áður hefur verið sagt. [...] [É]g mun því ekki kenna í Brekkuskóla meir, takk fyrir samveruna!“

Þá segir Snorri að uppgefnar ástæður fyrir uppsögninni hafi verið sagðar brot utan starfs sem samrýmist ekki starfi hans sem grunnskólakennara. og að Akureyrarbær telji að með því að skrifa og tjá sig opinberlega á meiðandi hát um samkynhneigð og transfólk hafir hann brotið svo af sér að réttlæti viðbrögð af hálfu bæjarins.

Foreldrar reiddust vegna skrifa

Foreldrar í Brekkuskóla á Akureyri urðu æfir í febrúar síðastliðnum vegna þess sem þeir kölluðu hatursskrif Snorra um samkynhneigða. Á bloggi sínu skrifaði: „Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin er ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.“

Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í kjölfar þess líkti Snorri svo samkynhneigð við bankarán. „Þessi kynhegðun er óbiblíuleg og þetta er alveg í sama flokki og hver önnur synd. Vandamálið er að það er verið að gera þennan málaflokk eða þessa synd, það er verið að gera hana eðlilega og menn segja að þetta sé allt í lagi og það séu bara mannréttindi að fá að vera svona. Ef ég væri nú bankaræningi að eðlisfari, þá væri búið að setja mig inn fyrir langa löngu."

Snorri sagðist í samtali við mbl.is í febrúar skilja gagnrýni á orð sín varðandi samkynhneigð enda hafi hann heyrt það lengi að skoðanir hans teljist ekki nútímaskoðunir. „En ég skil ekki þá gagnrýni sem kalla þetta fordóma eða hatursáróður. Það er eitthvað sem ég kannast ekkert við,“ sagði hann þá.

Skólayfirvöld á Akureyri ákváðu þá að leysa Snorra frá störfum út skólaárið. Hann ætti hins vegar kost á að hefja kennslu aftur í haust ef hann hætti að tjá sig á netinu um samkynhneigð. Snorri sagðist hins vegar ekki ætla að hætta að blogga.


Brekkuskóli á Akureyri
Brekkuskóli á Akureyri mbl.is/Kristján Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert