Fangelsi fyrir stórfellda árás

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 28 ára karlmann í 18 mánaða fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás og að yfirgefa fórnarlambið lífshættulega slasað og ósjálfbjarga. Tveir menn til viðbótar voru dæmdir í sex mánaða fangelsi fyrir að koma manninum ekki til hjálpar.

Árásarmanninum var gefið að sök að hafa aðfaranótt mánudagsins 27. febrúar í íbúð á fjórðu hæð og í stigagangi fjölbýlishúss við Laugaveg slegið fertugan karlmann eitt högg í kviðinn í íbúðinni, tekið hann hálstaki og dregið hann niður tröppur í stigagangi af fjórðu hæð hússins, eða þar til fórnarlambið tók að blána í framan. Ofan við stigapall á annarri hæð hafi hann síðan losað takið með þeim afleiðingum að fórnarlambið féll niður tröppurnar.

Þá á maðurinn að hafa, þar sem fórnarlambið lá á stigapallinum, sparkað í eða trampað á höfði þess með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut lífshættulega höfuðáverka, höfuðkúpubrot, blæðingu undir höfuðkúpubroti, glóðarauga á vinstra auga auk minni áverka.

Þá flutti árásarmaðurinn, ásamt tveimur til viðbótar, fórnarlambið út á gangstétt og skildu hann eftir þar ósjálfbjarga og lífshættulega slasaðan.

Sýknaður af flestum liðum

Ekki taldist sannað í málinu að árásarmaðurinn hafi slegið fórnarlamb sitt í kviðinn eða losað takið vísvitandi þannig að maðurinn féll niður tröppurnar.

Hins vegar þótti annað sannað og var maðurinn sakfelldur fyrir að sparka eða trampa á höfði mannsins þar sem hann lá í jörðinni. Engu var þó slegið föstu um áverka sem af því hlutust, enda hafði maðurinn nýlega áður fallið niður tröppurnar. "[S]ú aðferð hans var sérstaklega hættuleg þótt ekki verði slegið föstu að aðrir áverkar hafi hlotist af en far það sem brotaþoli bar í andliti."

Við sakfellingu var litið til skófars sem var á andliti fórnarlambsins og framburðar manns hjá lögreglu sem hjálpaði til við að bera fórnarlambið út, þrátt fyrir að sá hafi breytt framburði sínum fyrir dómi.

Í lófa lagið að hjálpa manninum

Allir voru mennirnir ákærðir fyrir að flytja fórnarlambið út úr stigaganginum og yfirgefa hann ósjálfbjarga og lífshættulega slasaðan á gangstétt án þess að koma honum til hjálpar.

Í niðurstöðu dómsins segir að mönnunum hafi hlotið að vera ljóst eftir að maðurinn hafði fallið í stiganum og gat hvorki gengið né tjáð sig að hann væri staddur í lífsháska, sérstaklega eftir að þeir höfðu borið hann út úr húsinu og lagt hann á gangstétt.

Dómurinn leit einnig til þess að þetta gerðist að nóttu til um miðjan vetur og myndir beri með sér að það hafi verið rigning. Þá segir að mönnunum hafi verið í lófa lagið að koma manninum til hjálpar og án þess að stofna sjálfum sér í minnstu hættu.

Árásarmaðurinn var einnig dæmdur til að greiða fórnarlambinu 400 þúsund krónur í miskabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert