„Hvar endar þetta?“

Snorri Óskarsson.
Snorri Óskarsson.

Snorri Óskarsson, grunnskólakennari á Akureyri, sem sagt var upp störfum í síðustu viku vegna ummæla um samkynhneigð, sem hann viðhafði á bloggsíðu sinni, segir að mál sitt veki upp ýmsar spurningar um starfsskilyrði og réttindi kennara.

Snorri hyggst leita ráða hjá Kennarasambandi Íslands og hugsanlega kæra framgang Akureyrarbæjar varðandi brottreksturinn. „Kennarasambandið hefur fylgst með áminningarferlinu og ég hef tvisvar sinnum fengið svör frá lögfræðingi sambandsins við fyrirspurnum mínum,“ sagði Snorri í samtali við mbl.is. 

Akureyrarbær bauð Snorra starfslokasamning fyrir nokkru, sem hann hafnaði. „Ef ég hefði þegið þann samning hefði ég hafnað rétti mínum til að sækja málið fyrir dómstólum. Þau buðu mér bara eitt ár á launum og opnuðu með því hina leiðina sem ég ætla að fara núna.“

Hvað ef þetta væru pólitískar skoðanir?

Að mati Snorra hefur málið vakið upp ýmsar spurningar um starfssvið og réttindi kennara.  „Mér finnst auðvitað nauðsynlegt að allir kennarar á landinu fái úr því skorið að þetta sé fær leið; það er að byggðarlag geti sagt manni upp og svipt menn tjáningarfrelsi og komið með þessa hugsun að þú verðir að vera sammála þeim.  Hvað ef þetta væru pólitískar skoðanir sem væru í andstöðu við meirihlutann? Hvar endar þetta?“ spyr Snorri.

Verulega mikið í húfi

„Það er verulega mikið í húfi. Ég vil að kennarastéttin sé vönduð og góð stétt og ég vil að kennarar geti tekið upp og rætt mál án þess að eiga það á hættu að vera reknir eða teknir á teppið og hótað öllu illu. Þetta snýst um stjórnarskrárvarin réttindi okkar.“ 

Snorri segist ekki hafa ákveðið hvað hann taki sér fyrir hendur nú; hvor hann sæki um annað kennarastarf eða snúi sér að öðrum störfum. „Annars hef ég í nógu að snúast, ég sé um söfnuðinn (Hvítasunnusöfnuðinn) hér á Akureyri og hef notið þess að starfa þar.“

Frétt mbl.is: „Menn skeindust á sálinni“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka