„Það eru leitarhópar á leiðinni á leitarsvæði núna,“ segir Sveinn H. Oddsson hjá svæðisstjórn björgunarsveita á Austurlandi spurður út í leit björgunarsveitarmanna Slysavarnafélagsins Landsbjargar að þýskum hjónum við norðaustanverðan Vatnajökul. Aðspurður segir hann aðstæður til leitar góðar.
Ekkert hefur spurst til hjónanna, sem eru um sextugt, frá því á laugardag en þau ætluðu að ganga yfir Eyjabakkajökul. Sveinn segir að eftirgrennslan hafi hafist sl. mánudag í kjölfar ábendinga frá landvörðum. „Menn höfðu áhyggjur af þeim vegna þess að þeim tókst ekki að láta vita af sér,“ segir hann.
Aðspurður segir Sveinn að hjónin séu vant göngufólk. Þau hafi bæði gengið á fjöll hér á landi sem og erlendis. Upplýsingar varðandi útbúnað þeirra eru hins vegar misvísandi en Sveinn segir að þau hafi ekki verið vetrarbúin. Hann tekur fram að á svæðinu hafi verið næturfrost.
Um 50 björgunarsveitarmenn, landverðir og þyrla Landhelgisgæslunnar taka þátt í leitinni sem hófst á nýjan leik í morgun. Leitað er við Snæfell, norðan Vatnajökuls. „Það er einnig verið að taka gönguleiðina sem er á milli Snæfells og Lónsöræfa,“ segir Sveinn.
Síðast sást til þeirra á Eyjabakkajökli seinnipart laugardags. „Þau lögðu af stað á jökulinn, en þau ætluðu labba þessa hefðbundnu leið milli Snæfells og Lónsöræfa. Þá er farið yfir sporð Eyjabakkajökuls,“ segir Sveinn.
Þar mættu þau öðrum erlendum ferðamönnum en Sveinn tekur fram að þýsku hjónin hafi í framhaldinu snúið við og sést ganga niður jökulinn.
Sveinn segir að það taki um það bil þrjá daga að ganga þessa hefðbundnu leið niður í Lónsöræfi þar sem menn eru þá komnir í Múlaskála. Talað var um að hjónin hefðu átt að vera komin þangað í gær.
Sveinn segir að eftirgrennslan hafi í raun hafist á mánudag í kjölfar ábendingar frá landvörðum sem höfðu áhyggjur af hjónunum. „Þau ætluðu að láta vita af sér þegar þau kæmu niður af jökli,“ segir Sveinn og bætir við að þau hafi reynt að hringja seinnipart laugardags en það gekk ekki þar sem símasambandið var mjög slæmt.
„Eftir það er ekkert vitað. Það næst ekki í símana,“ segir Sveinn.