Íslenskt „píratapartí“ í bígerð

Birgitta Jónsdóttir þingmaður Hreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, er í hópi þeirra sem vinna nú að stofnun nýs stjórnmálaflokks en auk hennar hefur Smári McCarthy forritari verið nefndur í þessu samhengi. Borgarstjórinn í Reykjavík er einn þeirra sem sýnt hafa stofnun flokksins áhuga. Fjallað var um flokkinn í DV í dag.

Stjórnmálaflokkurinn sem til stendur að stofna á rætur sínar að rekja til hinna svonefndu „pirate-flokka“ sem stofnaðir hafa verið víðsvegar um heim og hefur heitið verið íslenskað sem „píratapartí“.

Áherslumál pírata eru gagnsæi, opin stjórnsýsla, þátttökulýðræði, einstaklingsfrelsi, friðhelgi einkalífsins og tjáningarfrelsi svo eitthvað sé nefnt. En hugmyndafræðin mun vera „sprottin upp frá pólitísku landslagi þar sem rótgróin pólitísk elíta hefur fórnað hugsjónum sínum og kjósenda sinna á altari spillingarinnar,“ líkt og Birgitta Jónsdóttir orðar það á síðu sinni á samskiptavefnum Facebook.

Nefna má að sambærilegur flokkur í Svíþjóð er um þessar mundir með tvo Evrópuþingmenn og í Þýskalandi eru píratar með 25 þingmenn í ríkisþingum víða um land. 

Ekki lengur aðili að Dögun

Í bréfi sem Birgitta Jónsdóttir sendi til Dögunar í gær kemur m.a. fram að hún hafi átt þátt í stofnun flokksins sökum þess að hún telur að mikilvægt sé að öll smáframboð sem bjóði fram krafta sína í næstu kosningum vinni saman að brýnum breytingum hér á landi.

„Sú tilraun mistókst þegar Dögun var stofnuð þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá Samstöðu og Bjarta framtíð að borðinu,“ segir Birgitta í bréfi sínu og bætir við að hún eigi ekki lengur samleið með Dögun út af ólíkum áherslum varðandi forgang á vissum málefnum. 

Fyrir þremur vikum mættu nokkrir einstaklingar á fund þar sem rætt var að stofna íslenskt píratapartí. „Sá fundur og þeir sem hafa fylgt á eftir hafa verið þess eðlis að mér finnst ég eiga frekar heima þar og ætla að taka þátt í að stofna Píratapartí eftir nokkrar vikur. Ég lít því svo á að ég sé ekki lengur aðili að Dögun,“ sagði Birgitta í bréfi sínu sem sent var Dögun.

Ekki andlit flokksins

Í samtali við mbl.is segir Birgitta það mikilvægt að greina skýrt frá því að hún hafi ekki hugsað sér að vera einskonar andlit hins nýja flokks. Heldur sé um að ræða samsafn af fólki sem komi úr ólíkum áttum.

„Í raun og veru mikið af fólki sem kom saman eftir hrun og var annar af þremur stórum öngum í því sem varð Borgarahreyfingin,“ segir Birgitta í samtali við mbl.is og bætir við að alls ekki sé um að ræða flokk þar sem sitjandi þingmaður á Alþingi ætli að mynda nýjan stjórnmálaflokk í kringum sig.

Enn þingmaður Hreyfingarinnar

Birgitta segist einnig vera mikill talsmaður þess að stofnað verði til kosningabandalags fyrir kosningar þar sem stjórnarsáttmáli verði gerður og hann kynntur kjósendum áður en kosningar fara fram.

Þá segist hún að sjálfsögðu vera staðráðin í að starfa áfram sem þingmaður Hreyfingarinnar.

Þreifingar borgarstjóra

Jón Gnarr borgarstjóri hefur verið nefndur í samhengi við hinn nýja flokk og segir Birgitta hann hafa áhuga á að fylgjast með þróun mála og jafnvel komi borgarstjóri til með að styðja framboðið.

„Hún er svo skrítin þessi hugmyndafræði um að viðkomandi geti ekki nýst á mörgum stöðum. Að það að ganga inn í stjórnmálaflokk sé eins og að ganga inn í einhvern sértrúarsöfnuð,“ segir Birgitta og bætir við að hún muni halda áfram að vinna með ólíku fólki í ólíkum flokkum um þau málefni sem næst saman um. 

Birgitta segir borgarstjóra hafa átt ágætis fundi með þýskum pírötum þegar þeir komu hingað til lands. „Og þeir hafa sótt um aðild sem áheyrnarfulltrúar hjá Pirate Parties International.“

Ekki náðist í Jón Gnarr borgarstjóra við vinnslu fréttar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Alþingishúsið.
Alþingishúsið. mbl.is/Ómar Óskarsson
Ekki náðist í Jón Gnarr borgarstjóra í dag.
Ekki náðist í Jón Gnarr borgarstjóra í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert