Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, er tekjuhæsti kvenforstjóri landsins með 4.870 þúsund krónur á mánuði. Átta karlforstjórar eru með hærri laun en Rannveig. Næst henni er Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis, með 4.577 þúsund krónur á mánuði, níundi hæst launaði forstjóri landsins. Þetta kemur fram í tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag.
Langt er í næstu konu á listanum, en í 32. sæti yfir forstjóra fyrirtækja er Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, með 2.819 þúsund á mánuði. Fjórði hæsti kvenforstjóri landsins er í 51. sæti yfir hæst launuðu forstjórana, Einfríður Árnadóttir, forstjóri Íslenskrar myndgreiningar í Orkuhúsinu, með 2.349 þúsund á mánuði. Fimmti hæst launaði kvenforstjóri landsins er í 55. sæti yfir forstjóra. Það er Brynja Guðmundsdóttir, forstjóri Gagnavörslunnar, með 2.284 þúsund krónur á mánuði.
Þegar listinn yfir 330 tekjuhæstu forstjóra landsins er skoðaður kemur í ljós að þar eru einungis 46 konur. Af 100 tekjuhæstu forstjórunum eru tíu konur.
Auk þeirra fimm hér að ofan er Sigríður Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Logos lögmannsstofu, í 56. sæti með 2.220 þúsund krónur á mánuði. Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, er í 65. sæti með 2.130 þúsund á mánuði. Margrét Guðmundsdóttir, forstjóri Icepharma og stjórnarformaður N1, er í 81. sæti með 2.061 þúsund á mánuði. Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, er í 89. sæti með 1.947 þúsund á mánuði og Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri JÁ, í 94. sæti með 1.869 þúsund krónur á mánuði.