Björguðu hvölum sem sátu fastir í fjöruborðinu

Nokkrir grindhvalir festu sig í fjörunni við Innri Njarðvík í dag en hópur manna stökk í sjóinn og losaði dýrin eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. Einn þeirra segir dýrin skyndilega hafa synt að landi og fest sig í grjótinu.

„Þeir voru að synda þarna fyrir utan en allt í einu, mjög snöggt, kemur hópur þeirra upp í fjöruna. Flestir náðu að losa sig sjálfir en eftir voru nokkur dýr sem sátu föst í grjótinu. Við stukkum því til og losuðum þau,“ segir Samúel Ólafsson, sem fylgdist með grindhvalavöðunni við Innri Njarðvík í dag en endaði í björgunarstarfi í sjónum. Samúel segir hvalina hafa verið nokkuð frá ströndinni til að byrja með en allt í einu hafi hópur þeirra stefnt að landi. Hann segir hugsanlegt að bátar sem voru að safnast saman fyrir utan hafi fælt dýrin.

Hundruð grindhvala voru í dag undir Stapanum neðan við byggðina í Dalshverfi Innri Njarðvíkur, líkt og mbl.is sagði frá fyrr í dag.

Nokkrir kafarar í blautbúningum sem voru í báti í fjörunni fóru líka að losa dýrin. Samúel lét sig hins vegar ekki muna um að sökkva í sjóinn í gallabuxunum.

„Við sáum það strax að þeir voru nokkrir búnir að koma sér í sjálfheldu og sumir orðnir sárir af núningi við grjótið. Þeir gátu ómögulega snúið sér við svo við hjálpuðum þeim aftur út.“

Samúel segir að einn hvalurinn hafi verið stærri en hinir og virtist vera búinn að gefast upp á að losa sig sjálfur. „Það lak úr honum blóðið og það tók tíma að snúa honum við.“

Mikill mannfjöldi var saman kominn á grjótgarðinum er þetta gerðist. Samúel segir að börnum sem voru að fylgjast með vöðunni hafi brugðið, m.a. við að sjá blóðið sem lak úr sárum dýranna sem festust á fjörugrjótinu. Þá hafi verið mikill hamagangur í þeim svo sjórinn skvettist yfir nærstadda.

Samúel segir hvalavöðuna magnað náttúrufyrirbrigði sem gaman hafi verið að sjá með berum augum. „Þetta eru mikilfenglegar skepnur,“ segir Samúel og bætir við að sér hafi virst hvalirnir frelsinu fegnir.

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að ekki sé óalgengt að grindhvalir sjáist í stórum vöðum uppi við land en það sé þó sjaldgæft við Íslandsstrendur. Það hafi síðast gerst hér við land árið 1986, sagði hann við mbl.is fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert