Vel heppnuð „smalamennska“

Hvalaskoðunarskipið Elding tók þátt í að stýra grindhvalavöðunni aftur á haf út en hennar varð fyrst vart í gær við Stapann og festu nokkrir þeirra sig í fjörunni við Innri-Njarðvík.

Mbl.is greindi frá því í gær þegar hvalirnir festu sig í fjörunni en í fréttinni má sjá þegar hópur manna stekkur í sjóinn og reynir að losa dýrin.

Vignir Sigursveinsson skipstjóri var um borð í Eldingu og tók hann þátt í að „smala“ hvölunum aftur á haf út. Við aðgerðina þurfti Vignir m.a. að sigla skipi sínu fram og aftur af mikilli nákvæmni meðfram vöðunni og skapa sem mestan hávaða, t.a.m. með því að þeyta skipsflautuna í sífellu.

Þegar Eldingu bar að var grindhvalavaðan á svæði þar sem einungis er um fimm metra dýpi. Komst skipið því ekki inn fyrir vöðuna í fyrstu og hélt sig því til hlés.

Maðurinn á hvíta bátnum

„Ég var svo sem ekkert að hugsa um að smala þeim enda sá ég ekki fram á að geta gert það á mínum báti,“ segir Vignir Sigursveinsson skipstjóri og bætir við að fljótlega hafi komið að „mjög ákveðinn“ maður á hvítum báti.

Byrjaði maðurinn að smala grindhvalavöðunni og lagði þannig grunninn að því að hægt var að reka hvalina aftur á haf út.

„Ég sá fljótlega að hann vissi nákvæmlega hvað hann var að gera og ég hefði gaman að vita hvaða maður þetta er. Þegar hvalirnir voru komnir nógu utarlega, til þess að ég kæmist á Eldingunni inn fyrir, þá fór ég að hjálpa honum,“ segir Vignir en hann kveðst ekki vera vanur maður þegar kemur að því að smala hvölum.

Má því í raun segja að aðgerðin hafi verið spiluð af fingrum fram.

„Við vitum svo sem hvernig hvölum er smalað á land. Sagan segir okkur það hvernig Færeyingar og Íslendingar hafa smalað þeim á land og þetta eru bara svipaðar aðferðir,“ segir Vignir en í stað þess að sigla hljóðlega meðfram dýrunum, líkt og vanalega er gert í skoðunarferðum, var járni barið í síðu skipsins og vélin þanin til að skapa sem mestan hávaða.

Vignir segir aðgerðina hafa heppnast ágætlega og að mikil samvinna hafi verið á milli hans og mannsins á hvíta bátnum. Samkvæmt heimildum mbl.is gæti hvíti báturinn heitið Svalan og vill Vignir gjarnan ná tali af manninum um borð.

„Það væri gaman að heyra í honum. Mér datt í hug að hann hefði einhvern tímann áður komið nálægt þessu og jafnvel að hann væri Færeyingur, því hann var mjög ákveðinn þessi maður og gerði þetta á ákveðinn hátt. [...] Mér finnst þetta athyglisverður einstaklingur og væri til í að vita hvað hann heitir,“ segir Vignir og bætir við að þeir hafi náð að vinna mjög vel saman. 

Upplifun ævinnar

Á meðan á þessu öllu stóð voru 75 farþegar um borð í hvalaskoðunarskipinu og segir Vignir þá hafa upplifað ótrúlegt ævintýri enda ekki á hverjum degi sem fólk tekur þátt í að bjarga hvölum frá strandi.

Til gamans má geta að hefðbundin skoðunarferð tekur um þrjár klukkustundir en þessi ferð tók alls fimm klukkustundir. Voru farþegar því að vonum hæstánægðir með vel heppnaða og langa skoðunarferð.

Þegar mbl.is ræddi við Vigni fyrr í dag var hann staddur nálægt vöðunni með stóran hóp ferðamanna sem sýndu hvölunum mikinn áhuga. Að sögn voru dýrin afskaplega afslöppuð og sæl. „Þeir eru að stökkva og snúa sér í loftinu. Hegða sér bara eiginlega eins og höfrungar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert