Starfshópur fer yfir mál Huangs

Á fundi ríkisstjórnarinnar, sem haldinn var í morgun, var ákveðið að skipa hóp ráðherra og starfsmanna ráðuneyta til að fara yfir áform kínverska fjárfestisins Huangs Nubos um að leigja Grímsstaði á Fjöllum.

„Niðurstaðan var sú að settur verði niður hópur ráðherra og ráðuneyta til að fara yfir stöðu málsins, allra þeirra ráðuneyta sem á einhvern hátt tengjast þessu máli. En ég segi það sem mér finnst vera ánægjulegt að það viðhorf er uppi að ekkert hafi gerst í þessu máli sem sé óafturkræft,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra eftir fund ríkisstjórnar.

Hópurinn sem skipaður verður mun mynda afstöðu ríkisstjórnarinnar til málsins en niðurstaða þarf ekki að liggja fyrir innan neins ákveðins tíma.

„Nú verður farið yfir þessi mál af hálfu allra þeirra innan stjórnsýslunnar og ráðuneytanna sem tengjast málinu á einhvern hátt.“

Í tilkynningu sem iðnaðarráðuneytið sendi frá sér vegna málsins kemur m.a. fram að hópurinn verður skipaður fulltrúum frá iðnaðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, umhverfisráðuneyti og utanríkisráðuneyti.

„Ýmis álitamál hafa komið upp við vinnslu þessa máls. Mikilvægt er að skoða hver áhrif þessarar fjárfestingar yrðu  til framtíðar með hliðsjón af skuldbindingum íslenska ríkisins og sveitarfélaganna. Þá er mikilvægt að tryggja að fjárhag umræddra sveitarfélaga verði ekki stefnt í hættu vegna þessa verkefnis t.d. ef ekkert verður úr fyrirhugaðri uppbyggingu,“ segir í tilkynningu.

Hægt er að lesa tilkynninguna í heild sinni á heimasíðu ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert