Litlar líkur á heimsfaraldri

Starfsmenn WHO, alþjóðaheilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, í sóttvarnarklæðnaði á sjúkrahúsinu í …
Starfsmenn WHO, alþjóðaheilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, í sóttvarnarklæðnaði á sjúkrahúsinu í Kampala, höfuðborg Úganda. AFP

Enn og aftur berast fregnir af því að hin illræmda ebóla-veira sé farin að láta á sér kræla með skelfilegum afleiðingum. Þegar hafa 15 látist í Afríkuríkinu Úganda, þar af einn í höfuðborginni Kampala, tugir hafa smitast og sjö eru í einangrun á sjúkrahúsi. En hvað er ebóla-veiran og er ástæða til að óttast heimsfaraldur?

WHO, alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur ekki varað fólk við því að ferðast til Úganda, reyndar hafa engar þjóðir varað þegna sína við því, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu WHO. Embætti landlæknis segir að óhætt ætti að vera að ferðast til landsins, en bendir á almennar reglur um bólusetningar þegar farið er til tiltekinna landa og heimshluta.

Alltaf líkur á öllum sjúkdómum

„Það eru auðvitað alltaf líkur á öllum sjúkdómum. En ég veit ekki til þess að ebóla-veiran hafi greinst í Evrópu, þannig að líkurnar á að hún berist hingað eru ekki miklar,“ segir Þórólfur Guðnason, settur sóttvarnarlæknir hjá embætti landlæknis. „Ebóla gýs upp af og til, þetta er alltaf í gangi meira eða minna. En þetta er ekki útbreiddur sjúkdómur í raun og veru.“

Hitabeltisveira frá Austur-Kongó

Ebóla-veiran er hitabeltisveira. Hún dregur nafn sitt frá lítilli á í Austur-Kongó. Líklegt er talið að leðurblaka nokkur sé hýsill fyrir sjúkdóminn, en hún heldur einkum til í regnskógum Afríku og á vestanverðu Kyrrahafssvæðinu. Ebóla-veiran er afar hættuleg fólki, reyndar ein sú hættulegasta sem þekkt er.

Um tveir þriðju þeirra sem sýkjast af veirunni látast, yfirleitt innan nokkurra daga. Þeir sem sýkjast fá oftast mikinn hita og verki í vöðva. Þeir finna fyrir slappleika, á eftir fylgja uppköst og niðurgangur og stundum hætta líffæri að starfa sem veldur óstöðvandi blæðingum sem draga fólk til dauða. Frá smiti og þar til fyrstu einkenni koma fram geta liðið 2-21 dagur.

Vitað er til þess að 1850 manns hafi sýkst af veirunni frá því að hún uppgötvaðist árið 1976 í Austur-Kongó. Þar af hafa 1.200 látist vegna hennar. En þrátt fyrir að vera bráðsmitandi er að sumu leyti auðvelt að halda henni í skefjum þar sem þeir sem sýkjast deyja það fljótt að þeir geta ekki smitað aðra. Bent hefur verið á að ebóla-veiran sé kjörið verkfæri fyrir hryðjuverkamenn, sem gætu séð sér hag í því að dreifa veirunni.

Engin lyf

Þekktar eru fimm tegundir veirunnar og þar af eru þrjár einstaklega mannskæðar, samkvæmt upplýsingum frá WHO, Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna. Veiran smitast með blóði, líkamsvessum, hægðum eða með því að þiggja líffæri þess sem hefur sýkst. Dæmi eru um að  syrgjendur hafi smitast í jarðarförum er þeir snertu líkama hins látna og læknar og hjúkrunarfólk hafa fengið veiruna eftir að hafa meðhöndlað ebóla-sjúklinga. Það getur reynst banvænt að rannsaka blóðsýni sýkts fólks og dæmi eru þess að fólk hafi smitast eftir að hafa meðhöndlað sýkt dýr eins og apa og antilópur.

Engin lækning eða lyf eru til gegn ebóla-veirunni, en gerðar hafa verið ýmsar tilraunir með krabbameinslyf og notkun hvítblæðislyfja gegn veirunni hefur lofað góðu. Á síðasta ári tilkynntu bandarískir vísindamenn að þeir hefðu þróað bóluefni sem virkaði vel á mýs sem sýktar höfðu verið með veirunni, en frekari rannsókna er þörf þar til hægt verður að nota lyfið.

Skýtur upp kollinum af og til

Ebóla hefur skotið upp kollinum af og til undanfarin ár, stærsti faraldurinn varð í Úganda árið 2000 og þá létust meira en 200 manns. Síðast varð ebóla-faraldur í Mið- og Austur-Afríku árið 2009. Fyrr í vikunni varaði forseti Úganda, Yoweri Museveni, landsmenn við því að heilsast með handabandi og annarri líkamlegri snertingu við ókunnuga til að draga úr líkunum á smiti. 

Mikil umræða í Úganda

Páll Kvaran er nýkominn til landsins eftir að hafa starfað í Úganda á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Hann segir að mikil umræða sé um ebóla-veiruna í landinu, mikil umfjöllun sé í fjölmiðlum og fólki sé uppálagt að vera ekki í mikilli snertingu við ókunnuga.

„Það er til dæmis mikið talað um að fólk eigi að þvo hendur og forðast matatu, sem eru litlir strætisvagnar sem yfirleitt eru troðnir af fólki,“ segir Páll. „Annars hefur bara verið eitt tilfelli í Kampala þar sem ég bjó og ég vona það besta. Það væri ekkert grín ef fleiri færu að sýkjast þar. Borgin er mjög þéttbýl og þarna eru fátækrahverfi þar sem margir búa í litlum kofum með takmarkaða hreinlætisaðstöðu.“

Fylgist vel með 

Páll segir að vissulega hafi ákveðin hræðsla gripið um sig meðal þeirra sem hann þekkir þar ytra. „En það er kannski betra að það sé meiri en minni hræðsla þannig að fólk taki þetta inn á sig og geri það sem það getur til að stöðva þetta.“ Hann hyggur á að fara aftur til landsins innan nokkurra vikna. „Á meðan ástandið er svona tel ég að það sé allt í lagi. En ég fylgist vel með.“

Margvísleg áhrif

Hugsanlegur faraldur getur haft ýmis áhrif. Fyrir dyrum stendur helsta ferðamannatímabilið í Úganda, sem að öllu jöfnu er í ágúst. Færri ferðamenn hafa hingað til lagt leið sína til landsins en til nágrannaríkjanna Tansaníu og Kenía, en mikil markaðsherferð undanfarin ár var farin að skila árangri. En nú halda ferðamenn að sér höndum og afpanta ferðir sínar í stórum stíl.

Landið þekkt fyrir sjúkdóma og fátækt

Amos Wekesa rekur ferðaskrifstofu í landinu og í samtali við AP-fréttastofuna segir hann að mikil eftirspurn hafi verið eftir ferðum til Úganda og að hann hafi fengið fleiri bókanir en hann gat annað.

Skömmu eftir að staðfestar fregnir bárust um útbreiðslu ebóla-veirunnar fóru viðskiptavinirnir að afbóka. „Þetta var á réttri leið en núna skemmir ebóla allt. Saga okkar hefur slæm áhrif, hvað erum við þekkt fyrir? Idi Amin, sjúkdóma og fátækt; allt þetta neikvæða.“

Starfsmenn WHO, alþjóðaheilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, í sóttvarnarklæðnaði á sjúkrahúsinu í …
Starfsmenn WHO, alþjóðaheilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, í sóttvarnarklæðnaði á sjúkrahúsinu í Kampala, höfuðborg Úganda. AFP
Páll Kvaran, starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Úganda.
Páll Kvaran, starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Úganda.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert