Blésu lífi í ungan dreng

mbl.is/Heiddi

Sex ára gömlum dreng var komið til bjargar í Akureyrarsundlaug í dag en hann var nærri drukknaður. Það voru þrír ungir piltar, tveir 12 ára og einn 10 ára, sem sáu litla drenginn á botni laugarinnar og áttuðu sig á hvers kyns var. Þeir sóttu drenginn og syntu með hann að bakkanum þar sem þeir kölluðu eftir aðstoð.

Atvikið átti sér stað um kl. 14 í dag. Viðar Þorleifsson, aðalvarðstjóri hjá Slökkviliði Akureyrar, segir að um nærdrukkunun hafi verið að ræða. Litli drengurinn hafi verið meðvitundarlaus þegar honum var komið upp á sundlaugarbakkann. Viðar segist ekki vita hver aðdragandi slyssins var, en mikið fjölmenni var í sundlauginni þegar þetta gerðist. Drengurinn var með forráðamönnum í sundlauginni að sögn Viðars.

Aðspurður telur hann að litli drengurinn hafi verið meðvitundarlaus á botni laugarinnar í tvær til þrjár mínútur. „Þessir tveir drengir átta sig á þessu og koma honum upp að bakkanum og halda honum þar á floti þangað til aðstoð berst.“

Viðar segir að sundlaugarverðir hafi verið fljótir til. Þá voru öldrunarlæknir, heimilislæknir og sjúkraflutningamaður einnig í sundi og hófu strax lífgunartilraunir sem báru árangur.
 
Drengurinn var að ranka við sér þegar sjúkraliðar komu á vettvang. Hann var í framhaldinu fluttur á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri og þar var hann að mestu kominn með fulla meðvitund. Ljóst er að betur fór en á horfðist.

Mbl.is hefur hins vegar ekki fengið upplýsingar frá sjúkrahúsinu um líðan drengsins en ljóst er að hann verður áfram undir eftirliti á spítalanum að sögn Viðars.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert