Hafa náð tökum á eldinum

Slökkviliðsmenn að störfum.
Slökkviliðsmenn að störfum. mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir

Slökkviliðsmenn náðu fyrr í kvöld tökum á eldum sem loguðu í gróðri í Laugardal innst í Ísafjarðardjúpi, n.t.t. við Laugarbólsvatn. Grunur leikur að eldur hafi kviknað út frá sígarettu. Enn er nokkur reykur á svæðinu en búið er að ráða niðurlögum eldsins samkvæmt upplýsingum mbl.is.

„Áramótabrennan er búin hjá mér,“ segir ábúandi á svæðinu í samtali við mbl.is.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni og slökkviliðinu á Ísafirði barst tilkynning um eldinn kl. 15:48 í dag. Slökkvilið Súðavíkur fór á vettvang; alls sex menn á einum dælubíl.

Þorbjörn Jóhann Sveinsson, slökkviliðsstjóri á Ísafirði, segir að Súðvíkingar hafi óskað eftir aðstoð slökkviliðsins á Ísafirði um kl. 19. Fjórir menn frá Ísafirði fóru á staðinn á einum dælubíl og voru því 10 menn á tveimur dælubílum þegar mest lét. Bændur tóku einnig þátt í slökkvistarfinu.

Þorbjörn segir að það taki þó nokkurn tíma að komast á staðinn, eða um tvo tíma frá Ísafirði, og þá er dalurinn sjálfur illur yfirferðar. Hann tekur fram að í fyrstu hafi menn talið að eldur logaði í veiðihúsinu í Laugardal, en svo reyndist ekki vera. Grunur leiki á að eldurinn hafi kviknað út frá sígarettu.

Hann segir menn vera nokkuð rólega en þeir hafi m.a. notað haugsugur við verkið. Á svæðinu sé hins vegar mikið lyng og þá sé allur gróður afar þurr. Blossaði eldurinn í sífellu upp aftur og aftur vegna roks.

Svæðið er nú vaktað og samkvæmt upplýsingum frá ábúanda á svæðinu stígur enn töluverður reykur frá þessu en enginn eldur sést. Ábúandinn segist ekki vita hversu stórt svæði hafi brunnið. Þá bætir hann við að hann hafi haft samband við Neyðarlínuna kl. 14 vegna eldsins. Það kannast slökkviliðsstjórinn á Ísafirði hins vegar ekki við.

Þá segir ábúandinn og slökkviliðsstjórinn að hvorki fólk né mannvirki hafi verið í hættu.

Loks segir ábúandinn að vindáttin hafi verið hagstæð, þ.e. að reykurinn hafi ekki angrað eina einustu manneskju.

Stórt svæði varð eldi að bráð.
Stórt svæði varð eldi að bráð. mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert