Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, segir árið í ár vera eitt það besta sem hann muni eftir hvað vöxt trjágróðurs varðar. En frá aldamótum hafi tíðin verið einstaklega góð hvað þetta varðar. Mestur vöxturinn í ár sé suðvestanlands og útlit sé fyrir góðan fræþroska, sérstaklega hjá birki.
Þrátt fyrir kuldakast í vor og töluverða þurrka virðist trjágróðurinn taka vel við sér ,ekki síst í innsveitum á Suðurlandi þar sem birki hefur jafnvel vaxið um 30 cm í sumar. Enn eru þó nokkrar vikur eftir af vaxtartímabili trjáa en því lýkur seint í ágúst eða í byrjun september.
Brynjólfur segir mannfólkið njóta góðs af hærri trjágróðri þar sem hærri gróður taki í sig vind og þar af leiðandi verði lygnara og nefnir í því samhengi að aldrei hafi verið jafnmikið logn í höfuðborginni og í sumar.