Áhrifamikil sýning í Tryggvagötu

Í kvöld verður opnuð japönsk sýning í Aðalsafni Borgarbókasafns í Tryggvagötu um kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Þar er m.a. að finna muni á borð við föt 14 ára gamals drengs sem lét lífið í Hiroshima og má sjá sláandi myndir af hræðilegum afleiðingum sprengnanna tveggja.

Í dag eru 67 ár liðin frá því að sprengjunni Feita Manninum var varpað á Nagasaki með þeim afleiðingum að 70 þúsund manns létu lífið en um 215 þúsund manns létu lífið í borgunum tveimur og talið er að álíka margir hafi látist í eftirköstum kjarnorkuárásanna.

Hér má sjá frekari upplýsingar um sýninguna sem mun ferðast til Akureyrar í haust.

Í tilkynningu segir:

Fræðslu- og ljósmyndasýning um kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki og afleiðingar þeirra verður opnuð í Borgarbókasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu fimmtudaginn 9. ágúst kl. 19.30 og er opin það kvöld til kl. 22.00, en þá geta gestir gengið til Tjarnarinnar þar sem kertafleyting í minningu fórnarlambanna hefst kl. 22.30.

Á sýningunni eru munir frá atburðunum, áhrifamiklar ljósmyndir og fræðsluefni. Við kertafleytinguna við Tjörnina flytur Inosuke Hayasaki, 81 árs gamall Japani, ávarp, en hann lifði af kjarnorkusprenginguna í Nagasaki og var staddur í um eins kílómetra fjarlægð frá staðnum þar sem sprengjan féll. Sýningin verður í Borgarbókasafninu til 13. september, í Háskóla Íslands frá 14. september til 9. október og í Hofi á Akureyri 13.-29. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert