Ekki brot á stjórnarsáttmálanum

Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður VG.
Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það er ekki brot gegn stjórnarsáttmálanum að ræða við Samfylkinguna um endurmat á umsókninni um aðild að Evrópusambandinu að sögn Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formanns utanríkismálanefndar Alþingis, en rætt var við Árna í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

„Ég tel einfaldlega að við eigum að fara yfir það á Alþingi og í stjórnmálaflokkunum og á milli stjórnarflokkanna, yfir stöðuna eins og hún er núna. Meta þá áhrifin af því sem hefur verið að gerast í Evrópu. Það eru viðsjár þar eins og við vitum og allir sjá sem eru með opin augu. Hvort það hefur síðan áhrif á gang viðræðnanna af okkar hálfu er of snemmt að fullyrða um en ég tel fullkomna ástæðu til að fara yfir það rækilega,“ sagði Árni.

Hann tekur þar með undir það sjónarmið meirihluta þingmanna VG að rétt sé að taka umsóknina til endurskoðunar.

Árni Þór lagði ennfremur áherslu á að í stjórnarsáttmálanum væri kveðið á um það að ríkisstjórnarflokkarnir virtu ólíka afstöðu hvor annars til Evrópusambandsins og að flokkarnir hefðu frelsi til þess að berjast fyrir sinni afstöðu úti í samfélaginu. Hann hefði enga trú á því að Samfylkingin væri andsnúin því að málið væri rætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert