„Þetta eru okkur mikil vonbrigði“

„Við urðum fyrir miklum vonbrigðum með þennan fund og hlustuðum satt best að segja í forundran á hugmyndir fjármálaráðherra um 17,3% hækkun á virðisaukaskatti á gistingu,“ segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Forsvarsmenn samtakanna funduðu með fjármálaráðherra í dag þar sem þessar hækkanir voru kynntar af hálfu ráðuneytisins. Erna segir að verði þær að veruleika sé verið að veita ferðaþjónustunni í landinu rothögg og að allt of skammur fyrirvari sé á þessum hækkunum, en búið er að selja gistingu marga mánuði fram í tímann.

Allt of skammur fyrirvari

„Það eru okkur mikil vonbrigði hvað menn virðast halda að ferðaþjónustan þoli af skattahækkunum. Meðal þess sem fram kom af hálfu ráðuneytisins var að það sé óþarfi að ívilna gistingunni með lægra virðisaukaþrepi. Við bentum þá á að 29 af 32 löndum í Evrópu eru með gistinguna í lægra þrepi til að ýta undir ferðaþjónustu,“ segir Erna.

Hún segir að allt of skammur fyrirvari sé á hækkuninni, en verið sé að tala um að hún gangi í gildi 1. maí 2013. „Það er ekki hægt að hækka skatta með skemmri fyrirvara en 18-22 mánuðum. Við erum í blóðugri baráttu á alþjóðamarkaði. Ef við tilkynnum þessa hækkun,  segja erlendar ferðaskrifstofur einfaldlega að við verðum sjálf að bera hana. Markaðurinn tekur ekki við svona hækkun.“

Að sögn Ernu er búið að selja fjölda gistinátta langt fram í tímann, komi hækkunin til framkvæmda, þá lendir hún á seljandanum. 

„En jafnvel þó að þessu yrði frestað 18 mánuði fram í tímann, getur engin atvinnugrein tekið við svona gríðarlegri hækkun. Við erum á samkeppnismarkaði og það eru engar biðraðir til Íslands. Við erum hér í mikilli markaðssetningu, sérstaklega til að fá ráðstefnugesti og fólk heldur bara sínar ráðstefnur einhvers staðar annars staðar. En það getur vel verið að einstaklingar, sem hafa mikinn áhuga á að koma til Íslands, haldi áfram að koma hingað. En þeir munu þá leita í ódýrari gistingu, kannski bara þar sem engir skattar eru greiddir.“

Datt ekki í hug að mönnum væri alvara

Erna segir að margir gististaðir séu að rétta úr kútnum með aukinni ferðamennsku yfir vetrartímann, en enginn þeirra geti tekið við þessari hækkun. „Úti um allt land eru gististaðir sem eru að skapa tekjur í sinni heimabyggð og þeir skaffa vinnu. En þeir myndu aldrei þola að taka þetta á sig.“

Að sögn Ernu lagði fjármálaráðherra til að annar fundur yrði haldinn innan tíðar. Hún segir þessar hugmyndir koma ferðaþjónustufólki á óvart. „Okkur datt ekki í hug að mönnum væri alvara. Að taka grein sem er á góðri siglingu og veita henni svona rothögg.“

Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert