„Samkeppnin líður fyrir þessa ósiði“

Pétur H. Blöndal, alþingismaður.
Pétur H. Blöndal, alþingismaður. mbl.is

„Loksins, loksins. Ég er búin að gagnrýna vildarpunkta flugfélaga í minnst 11 ár. Nú loksins dúkkar þetta upp,“ segir Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í kvöld.

Tilefnið eru fréttir þess efnis að kærunefnd útboðsmála hafi komist að þeirri niðurstöðu að Ríkiskaup hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup með því að velja tilboð Icelandair í útboði um flugsæti til og frá Íslandi en þar er meðal annars fundið að því að punktasöfnun ríkisstarfsmanna með miðakaupum hjá Icelandair skekkti mjög samkeppnisstöðuna á markaðinum.

„Hvers vegna vilja samningamenn ríkisins ekki að ríkið fái vildarpunktana? Af því þeir sjálfir og samstarfsmenn þeirra fá vildarpunkta líka! Ríkið borgar og ríkisstarfsmenn (Sumir - þeir sem ferðast!) fá,“ segir Pétur og spyr síðan áfram: „Hver tapar? Skattgreiðendur og samkeppnin líður fyrir þessa ósiði, þetta siðleysi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert