„Það er óásættanlegt að hjá siglingaþjóðinni Íslandi sé ekki samkeppnishæf og öflug alþjóðleg skipaskrá. Öllum árum verður að róa að því að fá skipin skráð heim,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í kvöld í tilefni af frétt Morgunblaðsins í dag um að farmenn á íslenskum flutningaskipum borgi skatta sína í Færeyjum vegna þess að alþjóðlega íslenska skipaskráin er ekki samkeppnishæf við þá færeysku.
„Með því má skapa fjölda verðmætra starfa í ýmsum greinum. Fréttir af stöðu kaupskipaútgerðar á Íslandi eru góð áminning um það sem gerist þegar rekstrarumhverfi einstakra atvinnugreina stenst ekki samanburð við önnur lönd,“ segir Bjarni og bætir því við að því miður hafi lagasetning í þeim efnum komið til allt of seint eða eftir að öll kaupskip voru farin úr landinu.
„Það er sárgrætilegt að rifja þá sögu upp. Nú sjáum við jafnframt að lögin duga ekki til að laða útgerðirnar aftur heim. Við þessu verður að bregðast með því að ganga lengra. Ríkissjóður hefur allt að vinna. Skatttekjurnar í dag eru engar,“ segir Bjarni.