Andvana fædd hugmynd

Helgafell, skip Samskipa, er skráð í Þórshöfn í Færeyjum en …
Helgafell, skip Samskipa, er skráð í Þórshöfn í Færeyjum en heimahöfn fjögurra skipa Eimskipa er í St. Johns á Antígva og Barbúda. mbl.is/Sigurgeir S.

Færeyingar binda vonir við að aukin atvinnustarfsemi og tekjur skapist við aukningu hjá Færeysku alþjóðlegu skipaskránni (FAS). Nú þegar sigla um 100 skip sem eru á FAS undir færeyskum fána og ótalinn fjöldi skipa til viðbótar nýtir sér skattaívilnanir sem kaupaskipaútgerðum standa til boða í Færeyjum.

Færeyska alþjóðlega skipaskráin virðist bjóða mjög samkeppnishæf kjör. Það grundvallast að hluta til af því að Færeyingar gengu ekki í Evrópusambandið með Dönum á sínum tíma og eru því óbundnir af reglum ESB og EES um takmörkun á ríkisaðstoð við fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Þær reglur áttu þátt í því að Íslenska alþjóðlega skipaskráin var andvana fædd hugmynd.

Skattar endurgreiddir að fullu

Færeyska alþjóðlega skipaskráin og skattaívilnunarreglurnar eru í raun tvö aðskilin kerfi. Þannig geta kaupskipaútgerðir, eins og Eimskip sem skráir skip sín í öðru landi nýtt skattaívilnanir þar.

Í Færeyjum er lagður 35% skattur á brúttólaun sjómannanna og er skatturinn endurgreiddur kaupskipaútgerðum að fullu. Áður voru 28% skattsins endurgreidd en frá ársbyrjun 2009 hefur skatturinn verið endurgreiddur að fullu. Þetta nýta íslenskar kaupskipaútgerðir sér fyrir áhafnir skipa sem eru í föstum áætlanasiglingum á milli Íslands og Evrópu. Af skipunum sem skráð eru á FAS er greitt lágt gjald, svokallað tonnagjald, sem fer eftir stærð skipanna en ekki tekjum fyrirtækjanna.

Er þetta sama fyrirkomulag og hjá fleiri alþjóðlegum skipaskrám. Það átti einnig að innleiða á Íslandi með Íslensku alþjóðlegu skipaskránni (ÍIS) sem samþykkt var með lögum á árinu 2007 og lögum um skattaívilnanir til kaupskipaútgerða sem samþykkt voru samhliða. Í þeim fólst að 90% tekjuskatts og útsvars áhafna skipa á skránni yrðu endurgreidd til útgerðanna en þeim 10% sem eftir voru átti að skipta jafnt á milli ríkis og sveitarfélaga. Einnig var gert ráð fyrir skattfrelsi útgerðanna fyrir utan vægt tonnagjald.

Eftir að lögin voru samþykkt var leitað álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Eftir rannsókn á málinu komst hún að þeirri niðurstöðu að ríkisstyrkirnir væru ólögmætir samkvæmt EES-samningnum. Greinilegt er að ekki hefur tekist að laga þá að EES/ESB-reglum, eins og aðrar þjóðir hafa gert, meðal annars Norðmenn og Danir. Lögin um ríkisaðstoð var þó ekki felld brott úr lögum fyrr en í lok síðasta árs. Þá hafði ekkert kaupskip verið skráð á ÍIS.

Það var ef til vill ljóst frá upphafi að íslenska skipaskráin yrði ekki samkeppnisfær við þá færeysku, burtséð frá ríkisstyrkjunum. Bæði kom hún of seint, löngu eftir að íslensku skipafélögin misstu biðlundina og færðu skip sín á erlendar skipaskrár, og var síðan ekki nægilega aðlaðandi til að erlendir skipaeigendur vildu nýta sér þjónustuna. Eitt af þeim atriðum sem stungu í stúf við alþjóðlegar skipaskrár nágrannalandanna var að íslenskir kjarasamningar skyldu gilda um alla sjómenn, hvort sem þeir væru íslenskir eða erlendir. Aðrar skrár miða gjarnan við lögheimili viðkomandi sjómanna.

Engin skipaskrá er þó jafn frjálsleg og þægileg fyrir útgerðir og sú færeyska og skilgreinir Alþjóðaflutningaverkamannasambandið (ITF) færeyska fánann, Merkið, sem hentifána í þessum skilningi.

Grundvöllur íslenskra áhafna

Íslensku kaupskipaútgerðirnar starfa á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Öllum er frjálst að sigla hingað til lands og hafa erlend skipafélög gert það og náð stórflutningum af félögunum. Áhafnir þeirra eru í mörgum tilvikum á lágmarkstöxtum ITF sem eru allt niður í einn fimmta hluti af launum sem greidd eru samkvæmt kjarasamningum hér á landi.

Því er skiljanlegt að íslensku félögin nýti sér ríkisstyrki sem í boði eru, eins og til dæmis í Færeyjum. Það styrkir einnig samkeppnisstöðu íslensku sjómannanna. Með ákveðinni einföldun má segja að endurgreiðsla Færeyinga á skatti þeirra geri skipafélögunum kleift að halda sínum gömlu góðu starfsmönnum og greiða þeim laun samkvæmt kjarasamningum hér á landi.

Nýr heimur í viðskiptum

Færeyska alþjóðlega skipaskráin og tengdar skattaívilnanir opnuðu gluggann að nýjum heimi í færeyskum viðskiptum, að sögn Pauli Joensen, framkvæmdastjóra Faroe Maritime Services, sem meðal annars veitir ráðgjöf og aðstoð til stjórnenda kaupskipaútgerða við að koma skipum sínum undir færeyskan fána.

Færeyski landssjóðurinn og Færeyska alþjóðlega skipaskráin hafa ekki miklar beinar tekjur af skipum erlendra kaupskipaútgerða sem skráð eru þar eða áhöfnum þeirra. Tonnagjaldið er lágt og allur skattur áhafnanna endurgreiddur til útgerðanna. Því er meira litið til hliðarstarfsemi sem einkafyrirtæki á ýmsum sviðum geta haft hag af.

Pauli segir að vonir séu bundnar við uppbyggingu siglingatengdrar atvinnustarfsemi í tengslum við skipaskrána og að margar erlendar útgerðir muni nýta sér aðstöðuna. Nú þegar er ákveðin vinna við ráðgjöf, ekki síst lögfræðilega, en einnig stjórnun og umsýslu við leigu, kaup og sölu skipa.

Nýliðun með nýjum skipum

„Við lítum björtum augum á þetta, í fyrsta skipti í mörg ár,“ segir Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, sem er stéttarfélag undirmanna á kaupskipum. Hann bindur vonir við fjölgun atvinnutækifæra þegar tvö ný skip Eimskips koma til landsins á næsta ári.

Meðalaldur íslenskra farmanna er hár, bæði undirmanna og skipstjórnarmanna. Annar stýrimaður tekur við af fyrsta og verður síðan að lokum skipstjóri, ef allt er með felldu. Þetta ferli tekur áratugi, þegar hópurinn er lítill, og ungir menn virðast fremur líta til fiskiskipaflotans eða erlendra kaupskipa sem vinnustaðar framtíðarinnar. Þar geta tekjumöguleikar verið mun betri. „Það virðist því miður vera þannig, miðað við þau atvinnutækifæri sem eru í boði, að farmennska kemst ekki á blað hjá ungu fólki. Það þekkir ekki þessi störf,“ segir Ægir Steinn Sveinþórsson, starfsmaður í farskipa- og varðskipadeild Félags skipstjórnarmanna.

Fólk viti um störfin

Ný hreyfing getur komist á málin fyrir mitt næsta ár þegar tvö ný skip sem Eimskip er að láta smíða koma til landsins. Áhugi er hjá félaginu að manna þau íslenskum áhöfnum og hafa verið í ákveðnu samstarfi við Stýrimannaskólann í þeim tilgangi. Ægir telur að erfitt kunni að vera að manna skipin að fullu og nefnir vélstjórana sem dæmi. Þeir hafi víðan starfsvettvang, meðal annars í landi.

Jónas Garðarsson hjá Sjómannafélaginu segir að það sé vissulega verkefni hjá Eimskip að finna fólk á þessi skip. Hann telur þó að ef fólk viti um þessi atvinnutækifæri, muni verða sótt í þau, eins og önnur góð störf.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert