Evran samþykkt fyrirvaralaust í ríkisstjórn

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra.
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Rax

„Fyrir nokkrum vikum samþykktu ráðherrar VG, þar sem þeir sátu við ríkisstjórnarborðið í Stjórnarráðshúsinu, samningsmarkmið Íslands í peningamálum fyrir viðræðurnar við Evrópusambandið,“ segir Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og fulltrúi í samninganefnd Íslands vegna umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið, í föstum pistli sínum í Fréttablaðinu í dag.

Eins og fram kemur í pistli Þorsteins er því lýst yfir í umræddum samningsafstöðu í efnahags- og peningamálum að Ísland stefni að því að tala upp evru sem gjaldmiðil í stað íslensku krónunnar eins fljótt og mögulegt er.

Morgunblaðið greindi frá efni samningsafstöðunnar 11. ágúst síðastliðinn en hún hefur ekki enn verið gerð opinber. Eins og fram kom í frétt blaðsins er ekki farið fram á neinar undanþágur í afstöðunni aðrar en þá að fá venjubundið svigrúm til þess að uppfylla efnahagsleg skilyrði þess að taka upp evruna.

Í samningsafstöðunni segir meðal annars orðrétt: „Ísland fellst á regluverkið sem varðar 17. kafla um efnahags- og peningamál eins og það stóð 1. janúar 2012.“ Og ennfremur að Ísland verði þátttakandi í Efnahags- og myntbandalaginu og hyggist „uppfylla allar viðmiðanir varðandi samleitni og taka upp evruna eins skjótt og aðstæður leyfa.“

Þorsteinn segir ennfremur að um málið hafi verið „fyrirvaralaus eining í ríkisstjórn“. Þá bendir hann á að samkvæmt þingræðisreglunni beri „allir þingmenn stjórnarflokkanna pólitíska ábyrgð á þessari ákvörðun.“

Hann segir þessa samþykkt í ríkisstjórn hins vegar koma illa heim og saman við yfirlýsingar nokkurra ráðherra Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs undanfarið um að taka þurfi umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið til endurskoðunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert