Tæplega 45% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá í Reykjanesbæ í júlí síðastliðnum, eða 280 manns, hafa verið þar í tvö ár eða lengur og eru því á leiðinni að missa réttinn til atvinnuleysisbóta. Tugir manna hafa þegar misst þann rétt og 64 eru nú komnir alfarið á framfæri Reykjanesbæjar.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að þessi hópur, bæði þeir sem eru langtímaatvinnulausir en enn á skrá og þeir sem hafa misst bótaréttinn, sæki nú af auknum þunga til félagsþjónustu Reykjanesbæjar eftir lausnum. Hann segir að 179 manns hafi sótt um fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins í júlímánuði.
Árni segir að hið dökka ástand sem blasti við öðrum sveitarfélögum í málefnum langtímaatvinnulausra í vetur sé orðið að veruleika í Reykjanesbæ, því að fjöldi þeirra hafi fjórfaldast frá því í júlí árið 2010. „Framlög til fjárhagsaðstoðar sveitarfélagsins hafa nær tvöfaldast frá áætlun og stefnir í að fjárhagsaðstoðin nemi 270 milljónum króna, um 120 milljónum króna yfir áætlun. Við stöndum undir því en óneitanlega væri æskilegra að þessir fjármunir nýttust fólkinu til atvinnuuppbyggingar.“