Ung hjón í gamalgrónu íbúðarhverfi í Hafnarfirði komust í hann krappan seint á föstudagskvöld þegar minkur skaust inn um opnar svaladyr. Hjónin hringdu á meindýraeyði sem kom sér hjá því að aðstoða þau og Neyðarlínan sagði lögreglu lítið geta gert. Þau glímdu við minkinn í um fjóra klukkutíma.
Hjónin búa á jarðhæð húss í suðurhluta bæjarins ásamt ungum börnum, tveimur hundum og ketti. Á föstudagskvöld sat fjölskyldufaðirinn, Daði Garðarsson, í stofunni þegar hann sá eitthvað loðið skjótast inn um svaladyrnar og framhjá honum. Í fyrstu hélt hann að um kött væri að ræða en þótti heimsóknin engu að síður eitthvað skrítin.
Hundarnir æstust mjög þegar þeir urðu varir við dýrið sem hljóp beina leið undir sófa. „Sófinn er ansi stór þannig að ekki var hægt að sjá dýrið almennilega undir honum. Við náðum þá í vasaljós og Daði beindi því undir. Hann leit og svo á mig og sagði: „Þetta er sko ekki köttur,““ segir Karólína Helga Símonardóttir.
Karólína segir að þau hafi þá ákveðið að ná í myndavél og prófa að taka mynd af dýrinu undir sófanum. Þá hafi þau verið nokkuð viss um að þetta væri minkur. „En við vorum í raun ekki hundrað prósent viss fyrr en dýrið var dautt og við sáum það almennilega.“
Í fyrstu reyndu hjónin ungu að koma minknum aftur út um svaladyrnar en fljótlega runnu á þau tvær grímur. „Við veltum því fyrir okkur hvaða tilgangi það myndi þjóna. Við erum með lítil börn, hunda og kött og minkurinn gæti farið undir pallinn hjá okkur. Eða bara inn í næsta hús. Við búum í miðju íbúðarhverfi og það er leikskóli í grenndinni.“
Þá ákváðu þau að leita aðstoðar fagmanns. „Við töldum farsælast að koma dýrinu fyrir kattarnef og hringdum á meindýraeyði. Hann spurði okkur hvernig við bærum okkur að og við sögðum honum að við værum að reyna ná honum með kústi. Hann sagði okkur þá gera nákvæmlega það sama og hann myndi gera. „Haldið þessu bara áfram,“ sagði hann svo.“
Karólína sagði þau hafa verið frekar ósátt við þessi viðbrögð en gátu varla farið að neyða manninn til að aðstoða. Þau hringdu þá á Neyðarlínuna og spurðu hvort einhver þar gæti leiðbeint þeim. Þar fengust þau svör að hægt væri að senda lögreglu á vettvang en vísast myndu lögreglumennirnir ekki geta gert neitt annað heldur.
Minkurinn var dauður um kl. 3.30 aðfaranótt laugardags. Karólína telur enga ástæðu til að fara nákvæmlega út í smáatriði en áréttar að hún hefði frekar viljað fá aðstoð fagfólks. „Þetta er minkur og við þekkjum þetta dýr ekki. Við þurftum að leita á netinu hvernig þeir líta út og hvernig þeir hegða sér. Manni líður ekkert vel með að hafa þetta inni hjá sér.“
Daginn eftir skrúfuðu þau upp pallinn í garðinum hjá sér til að ganga úr skugga um að þar væri ekki greni að finna. Þá hafði Karólína bæði samband við annan meindýraeyði og svo bæjarfélagið. Það kom henni mikið á óvart að þetta skyldi ekki koma neinum á óvart. Meindýraeyðirinn sagði þetta reyndar óvanalega staðsetningu en líklega væri þetta eitthvert flökkudýr.