Skotvopnið sem hleypt var af í Garðabæ í gær reyndist vera stór og öflugur veiðiriffill. Sérsveit lögreglu fór á staðinn en að sögn lögreglu kom í ljós að atvikið mætti rekja til veikinda þess sem meðhöndlaði vopnið.
Enginn slasaðist þegar skotinu var hleypt af í heimahúsi í Garðabæ í gær, en þegar tilkynnt var um hvellinn fór að sögn lögreglu af stað hefðbundið ferli til að tryggja öryggi á svæðinu.
30 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni sem gekk hratt fyrir sig og var einn maður var handtekinn. Samkvæmt upplýsingum lögreglu á maðurinn við veikindi að stríða og mun hann fá aðstoð við hæfi.
Hald var lagt á riffilinn, en að sögn lögreglu bendir ekkert til þess annars en að reglum um skráningu og geymslu skotvopna hafi verið fylgt.