Litríkt verður um að litast í Jökulsárlóni í kvöld, en þá fer fram árleg flugeldasýning við lónið auk þess sem ísjaki verður lýstur upp með kertaljósi.
„Það er allt að smella saman, veðrið er bjart og gott, flugeldarnir eru komnir út á lón og við ætlum svo sannarlega að gera okkar besta,“ segir Jónas Friðriksson formaður Björgunarfélags Hornafjarðar sem stendur að sýningunni ásamt ferðaþjónustunni á Jökulsárlóni og Ríki Vatnajökuls. „Umhverfið er auðvitað ægifagurt og birtan er mjög skemmtileg á þessum tíma. Þarna eru heldur engin útiljós og enginn hávaði, þannig að upplifunin er mögnuð,“ segir Jónas.
Að sögn Jónasar ætti sýningin að vera hin glæsilegasta, en hún hefst um klukkan 23 og varir í hálftíma. Undirbúningur hefst þó nokkrum tímum fyrr þegar kveikt er á fjölda kerta sem dreift er um ísjakana í lóninu. „Við erum með rúmlega það flugeldamagn sem við vorum með í fyrra, við reynum alltaf að gera betur á hverju ári,“ segir Jónas.
1.500 gestir
Viðburðurinn er mikilvæg fjáröflun fyrir björgunarfélag Hornafjarðar og rennur allur aðgangseyrir óskiptur til félagsins, það er 1.000 krónur á mann.
Aðspurður segist Jónas eiga von á fjölda gesta í kvöld. „Ætli það komi ekki um 1.000 manns eða þar um bil,“ segir hann en í fyrra mættu um 1.500 manns svo ekki er ólíklegt að væntingar Jónasar verði toppaðar ár enda á flugeldasýningin síauknum vinsældum að fagna milli ára.
Hann segir gesti flugeldasýningarinnar, sem nú er haldin í 11. skiptið, koma úr ýmsum áttum. „Það eru bæði erlendir ferðamenn og fólk alls staðar að. Margir gististaðir bjóða upp á hópferðir með rútu á sýninguna,“ segir Jónas.
Fyrir þá sem ekki komast að Jökulsárlóni í kvöld verður að fylgjast með flugeldasýningunni gegnum vefmyndavél Mílu hér.