Strax sýnt að Armstrong væri kandídatinn

Tilgangurinn með komu bandarískra geimfara hingað til lands á sjöunda áratugnum var fyrst og fremst sá að kynna þeim aðstæður og landslag sem væri sem líkast því sem gerðist á tunglinu. Fyrsti hópurinn kom hingað til lands árið 1965. Hinn síðari kom 1967 og var Neil Armstong þá meðal leiðangursmanna. 

„Námsferðir þessar eru farnar til þess að gera geimförunum kleift að kynna sér ýmiss konar jarðmyndanir, svo að auðveldara verði fyrir þá að velja sýnishorn til töku á tunglinu þegar mönnuð heimför verða send þangað,“ sagði í frétt í Morgunblaðinu 25. júní 1965. Geimfararnir komu til landsins fáeinum dögum síðar og flugu í framhaldinu norður í land með flugvél frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Flugbraut fyrir fréttamyndir

Þegar norður var komið tóku við kynnisferðir um Öskju. Má segja að það svæði hafi verið sprelllifandi, því enn rauk úr snarkandi hrauni Öskjugossins fjórum árum fyrr.

Guðmundur E. Sigvaldason og Sigurður Þórarinsson voru kennarar geimfaranna í Öskju. Þeir voru báðir virtir jarðvísindamenn og sýnir fylgd þeirra með geimförunum vel hvaða trausts og virðingar þeir nutu í fræðigrein sinni.  Þekking var tekin fram yfir meintar skoðanir.  Báðir voru þessir menn frekar taldir til vinstri á vettvangi stjórnmálanna en voru, í miðju kalda stríðsins, þó fengnir til þessa verkefnis sem var nokkurskonar átakamiðja í kapphlaupi stórvelda austurs og vesturs.

Fyrir blaðamenn sem fylgdu geimförunum eftir var hægara sagt en gert að senda frá sér efni. Menn dóu þó ekki ráðalausir. Fyrstu fréttir úr Öskju voru sendar á öldum ljósvakans; pistlar sem íslensku blaðamennirnir skrifuðu og höfðu yfir í gegnum Gufunesradíó. En svo kom að því að birta þurfti myndir. Tíminn og Morgunblaðið slógu í púkk og sendu Björn Pálsson sjúkraflugmann norður til að sækja filmur með myndum af geimförunum. Og til þess að geta lent við Öskju höfðu blaðamennirnir ekið þvers og kruss á sléttum fleti á Vikrunum austan við Öskju og þannig útbúið flugbraut. Með öðrum orðum sagt; öllu var kostað til.

Dansað á sveitaballi

Tveimur árum síðar kom annar hópur alls 23 geimfaraefna til landsins og var Armstrong þar á meðal. Líkt og í fyrri ferðinni var flogið til Akureyrar. Svo var haldið austur á bóginn en á leiðinni höfð viðkoma við Helluvað í Mývatnssveit þar sem menn renndu fyrir silung. Í framhaldi var svo farið á sveitaball í félagsheimilinu Skjólbrekku, þar sem geimfararnir dönsuðu eins og enginn væri morgundagurinn. Frá þessu segir í bókinni Fólk og fréttir sem höfundur þessarar greinar skrifaði og gaf út fyrir tveimur árum. 

Þegar kom í Öskju var farið í rannsóknarferðir um svæðið, líkt og tveimur árum fyrr. Slógu geimfararnir upp tjaldbúðum við Dreka, þar sem gil gengur inn í fjallið sem ferðaskálar standa undir. Íslendingarnir á svæðinu töluðu fyrst í stað um Geimfaragil – en jarðfræðingurinn Sigurður Þórarinsson, sem var orðhagur og höfundur margra þekktra söngtexta, valdi nafnið Nautagil með vísan til enska orðsins „astronaut“ – sem merkir geimfari. Er Nautagil síðan viðurkennt örnefni.

Jafnoki Kólumbusar?

Kári Jónsson, sem í áratugi var fréttastjóri Útvarpsins en áður blaðamaður á Tímanum og þá þátttakandi í Öskjuleiðangrinum, segir í áðurnefndri bók að í ferðinni 1967 hafi verið nánast sýnt að Armstrong  væri kandídat í tunglferðina. Hann hefði haldið sig utan við hóp félaga sinna sem hefðu slegið um hann skjaldborg.

Kenning Kára og annarra fréttamanna á staðnum átti við rök að styðjast.  Tveimur árum síðar flaug Armstong með þeim Edvin Aldrin og Michael Collins með geimferjunni Erninum til tunglsins – sem um alla tíð hefur verið fólki ráðgáta og yrkisefni á ýmsa vegu. 

Í sögulegu ljósi má velta þessari tunglferð fyrir sér á ýmsa vegu og meta þannig stærð hennar. Förin var einstök og ekki er fráleitt að Armstrong verði í fjarlægð tímans ámóta stærð og t.d. Kristófer Kólumbus sem náði til Ameríku árið 1492 - sem aftur markaði upphaf landnáms Evrópubúa vestanhafs.

Djörfung til sóknar

Í ferðinni árið 1967 heimsótti Bjarni Benediktsson forsætisráðherra geimfaraefnin sem þá voru stödd í Herðubreiðarlindum. Þangað flaug Bjarni með Agnari Kofoed-Hansen flugmálastjóra.

„Forsætisráðherra ræddi mikið við geimfarana sem kunnu vel að meta heimsóknráðherrans,“ segir í frétt Morgunblaðsins.

Á sinni tíð var nánast þjóðarleyndamál að Bjarni Benediktsson væri höfundur Reykjavíkurbréfa Morgunblaðsins. Tók hann þar fyrir ýmis þau mál sem efst voru á baugi og sumarið 1969 var tunglferðin mál málanna. Og í Reykjavíkurbréfi 27. júní 1969 sagði um ævintýrið mikla, sem upphaf átti á Íslandi:

„Líklega verður tunglferð Ameríkumanna talinn merkasti viðburður aldarinnar, enda má segja að menn hafi hvarvetna staðið á öndinni í heila viku, svo mikla hrifningu vakti þessi djarfa för … Mannsandinn er leitandi og hann lætur ekki nægja glímu við hið þekkta heldur sækir hann fram til sóknar hinu óþekkta og framfarirnar yrðu engar, ef ekki væri sýnd djörfung, einmitt á borð við þá, sem menn hafa nú kynnst. Þess vegna er fyllsta ástæða til þess að fagna þeim árangri sem náðst hefur, því hann sýnir að maðurinn stendur ekki í stað, heldur miðar nokkuð á leið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert