Gerðu þrjá fyrirvara við peningamálin

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hið rétta er að þrír fyrirvarar komu fram á þessum fundum: Varðandi afnám gjaldeyrishafta; varðandi inngöngu í ERM II gjaldeyrissamstarfið og varðandi upptöku evru,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann vísar þar til afgreiðslu ríkisstjórnarinnar í sumar á samningsafstöðu Íslands í efnahags- og peningamálum vegna umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið en þar segir meðal annars að Ísland stefni að því að taka upp evru sem gjaldmiðil í stað íslensku krónunnar eins fljótt og mögulegt sé.

Þorsteinn Pálsson, sem sæti á í samninganefnd Íslands vegna umsóknarinnar, sagði í grein í sama blaði 18. ágúst síðastliðinn að ráðherrar Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefðu á ríkisstjórnarfundi samþykkt samningsafstöðuna í peningamálum án fyrirvara.

„Sá sem ekki vill ganga í ESB er varla áhugasamur um upptöku evru og hélt ég að Þorsteini Pálssyni væri kunnugt um afdráttarlausa afstöðu VG í þeim efnum. VG gerði fyrirvara um málið í heild sinni og hefur frá upphafi haldið því opnu að endurskoða málið ef aðstæður breyttust. Það hafa þær svo sannarlega gert,“ segir Ögmundur ennfremur í grein sinni.

Þá segir hann að jafnan sé að finna sömu stefin í greinum Þorsteins í Fréttablaðinu og eitt þeirra sé „að VG sé tvísaga í aðildarviðræðunum við ESB; sé fylgjandi aðild innan veggja Stjórnarráðsins en andvígt utandyra“. Þessu hafnar Ögmundur og segir ennfremur að aldrei hafi staðið til að málið drægist á langinn þar til Evrópusambandið og stuðningsmenn inngöngu í það fyndu heppilegan tímapunkt til þess að kjósa um það.

„Samkvæmt skoðanakönnunum er yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga andvígur því að ganga í ESB. Það er ekkert undarlegt því Evrópa logar. Að sjálfsögðu á þjóðin rétt á því að vera spurð hvort hún vilji inn í eldhafið. Það verður að gerast áður en þetta kjörtímabil er úti. Þá verða kaflaskil,“ segir Ögmundur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka