Mikið tjón hjá Jarðböðunum á Mývatni

Jarðböðin í Mývatnssveit.
Jarðböðin í Mývatnssveit. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Rannsóknarlögreglan á Akureyri rannsakar nú innbrot á skrifstofur Jarðbaðanna á Mývatni í byrjun ágúst. Nokkrum milljónum króna var stolið úr peningaskáp, en lykilinn að skápnum var að finna á skrifstofunni.

„Við höfum fengið ýmsar ábendingar sem við erum að vinna úr í samvinnu við lögregluna á Húsavík. Rannsókninni er ekki lokið, við höfum ekki náð í alla þá sem við viljum tala við, svo við getum í raun lítið sagt á þessu stigi,“ segir Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri.

Talið er að innbrotið hafi átt sér stað aðfaranótt þriðjudagsins 7. ágúst. Ekkert þjófavarnakerfi var virkt og því kom innbrotið í ljós þegar starfsfólk mætti til vinnu um morguninn. Öryggismyndavélar eru heldur ekki á svæðinu að sögn lögreglu.

Aðspurður segist Daníel ekki geta svarað því hvort talið sé að þarna hafi kunnugir menn verið á ferðinni. Sem fyrr segir brutust þeir inn á skrifstofuna, en þegar þangað var komið þurfti þeir ekki að brjóta peningaskápinn upp þar sem lykilinn var að finna í sama herbergi. Ekki fengust nákvæmar upplýsingar um hve miklu var stolið en tjónið mun hlaupa á milljónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert